Jagger ánægður með myndband Mána

Myndefni Mána á tónleikum Rolling Stones í Dublin í gær.
Myndefni Mána á tónleikum Rolling Stones í Dublin í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Upphaflega átti ég að gera myndefni fyrir lagið Midnight Rambler en það fór ekki í gegn. Síðan vildu þeir að ég myndi gera efni fyrir Sympathy for the Devil og þeir voru ánægðir með það,“ segir Máni M. Sigfússon sem nýverið gerði tónleikamyndband fyrir nýjustu tónleikaferð Rolling Stones sem hófst í gær.

Máni er listrænn stjórnandi hjá Undir Studios, en hann segir fyrirtækið Treatment Studio, sem sér um tónleikamyndbönd fyrir fjölda frægra tónlistarmanna, hafa haft samband við sig eftir að einn framleiðendanna sá myndband eftir Mána frá 2013 á Vimeo.

Mick Jagger vildi að myndefnið nyti sín betur

Máni segir bransann fyrir tónleikamyndbönd vera stóran. „Það er svo mikið í gangi. Á öllum stærri tónleikum er alltaf eitthvað myndefni. Ég hef gert myndefni fyrir yfir tíu heila tónleika en aldrei neitt á þessum skala.“

Tónleikarnir á hljómleikaferðinni sem Rolling Stones hófu í gær byrja á tónleikamyndbandinu hans Mána og Sympathy for the Devil hljómar undir. Það er spilað í um mínútu áður en Mick Jagger stígur sjálfur á svið og byrjar að syngja.

Mick Jagger stiginn á svið.
Mick Jagger stiginn á svið. Ljósmynd/Aðsend

Máni var ekki í beinum samskiptum við liðsmenn Rolling Stones, en hans vinna fór fyrst í gegn um framleiðslufyrirtækið sem lét leikstjóra tónleikanna hafa efnið sem svo sýnir hljómsveitinni það.

„Um daginn var ég að tala við framleiðandann sem sá um mig og hann sagði mér að Mick Jagger hafi verið að tala við leikstjórann um það hvort þeir ættu að byrja á Sympathy for the Devil. Leikstjórinn vildi það en Mick Jagger vildi hafa það seinna á tónleikunum svo það yrði orðið dimmt svo að myndefnið myndi sjást betur.“

„Það var alveg svolítið súrrealískt. Mick Jagger var alla vega að fíla þetta,“ segir Máni. „Til að byrja með vissi ég ekkert hvort þeir væru yfir höfuð eitthvað að pæla í þessu. En greinilega eitthvað.“

Þegar boðist nýtt verkefni fyrir stóran tónlistarmann

Máni hlær þegar hann er spurður að því hvort hann sé mikill aðdáandi Rolling Stones. Hann segist aðallega vera aðdáandi arfleifðar hljómsveitarinnar.

Í tilkynningu frá Undir Studios segir að Mána hafi þegar verið boðið annað stórt verkefni fyrir annað stórt nafn í tónlistarbransanum. Máni játar því en segist ekki mega greina nánar frá því strax. „Ég má ekki segja hver það er en það er yngri tónlistarmaður,“ gefur hann þó vísbendingu um.

Í spilaranum hér að neðan má sjá tónleikamyndband Mána frá tónleikum Rolling Stones í Dublin í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert