Keppni í hraða, leikni og hönnun

Allt er lagt í sölurnar í hinu árlega Kassabílarallýi.
Allt er lagt í sölurnar í hinu árlega Kassabílarallýi. Haraldur Jónasson/Hari

Börn í 3. og 4. bekk á frístundaheimilunum Frostheimum, Draumalandi, Eldflauginni og Halastjörnunni öttu kappi í torfæru-kassabílarallý á Klambratúni í dag. Keppt var í kynjaskiptum flokkum um fyrsta og annað sæti. Að loknu rallýinu sýndu BMX-brós snilli sína á hjólum.

Haraldur Jónasson/Hari

„Það þarf að hlaupa hratt og stýra vel“

Steinunn Gretarsdóttir er deildarstjóri barnasviðs frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar. Undir Tjörnina heyra frístundaheimili sem ætluð eru börnum í Mela-, Granda-, Vesturbæjar-, Austurbæjar-, Háteigs-, og Hlíðaskóla.

„Kassabílarallýið er alltaf endapunkturinn við vetrarstarfið okkar. Þau eru reyndar tvö, því 1. og 2. bekkur fá líka að spreyta sig. Þeirra keppni verður haldin á Ingólfstorgi 1. júní. 3. og 4. bekkur fá meiri áskorun, að keppa á grasinu á Klambratúni,“ segir hún.

Haraldur Jónasson/Hari

Að sögn Steinunnar gekk rallýið eins og í sögu. Framan af degi leit þó út fyrir að votviðri myndi setja strik í reikninginn. Blautt grasið á Klambratúni lét t.d. undan þyngd sviðsvagns sem til stóð að nota við herlegheitin svo það þurfti að hífa hann upp með krana. „Síðan birti allt í einu til og það var stilla og sól hjá okkur allan tímann,“ sagði Steinunn.

„Þetta er hörð keppni, sérstaklega hjá eldri krökkunum. Það er keppt í undanúrslitum og síðan keppa tvö efstu liðin í úrslitum. Það þarf að hlaupa hratt og stýra vel,“ segir Steinunn.

Haraldur Jónasson/Hari

Smíða bílana frá grunni

Ekki er aðeins keppt í hraða og leikni, heldur einnig hugviti og hönnun. Þannig eru einnig veitt verðlaun fyrir flottasta kassabílinn. Steinunn segir að starfsfólk frístundamiðstöðvanna og krakkarnir vinni að bílunum í sameiningu.

Haraldur Jónasson/Hari

„Krakkarnir eru mjög virkir í þessu. Þeir sem vilja búa til kassabíla og koma að hönnuninni fá að gera það,“ bætir hún við.

Starfsfólkið leggur sig í lífshættu

Kassabílarallýið er ekki aðeins keppni milli barnanna, heldur einnig starfsfólksins að sögn Steinunnar. Þeir keppa við starfsbræður sína og systur í hverfunum í kring og keppnisandinn er alls ekki minni en hjá krökkunum.

Haraldur Jónasson/Hari

„Sú keppni er alltaf æsispennandi, sumir leggja sig í lífshættu. Það er allt lagt í sölurnar til að fara heim með bikar, fólk hefur farið slasað heim og finnst það þess virði!“ segir Steinunn og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert