Lentu í snjóflóði á Grímsfjalli

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls en uppi …
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls en uppi á því eru skálar Jöklarannsóknafélags Íslands. Í fjarska sér til Heklu sem ber við himin hægra megin. mbl.is/Ragnar Axelsson

Ferðamennirnir tveir, sem sendu frá sér neyðarboð á Vatnajökli í gærkvöldi, lentu í snjóflóði í hlíðum Grímsfjalls. Þeir kveiktu í kjölfarið á neyðarsendi og hófst leitaraðgerð þegar í stað. Björgunarsveitarmenn frá Hornafirði fundu mennina um þrjúleytið í nótt og voru þeir þá búnir að grafa sig í fönn og voru orðnir verulega blautir og kaldir.

Þetta segir Friðrik Jónas Friðriksson, hjá Björgunarfélagi Hornafjarðar, sem stýrði leitaraðgerðum frá Hornafirði í gærkvöldi og nótt.

Ítarleg ferðaáætlun

Friðrik segir að um klukkan 19 í gærkvöldi hafi borist neyðarboð frá sendi mannanna. Þeir höfðu skilið eftir ítarlega ferðaáætlun hjá SafeTravel og því var hægt að sjá hvaðan þeir lögðu af stað og hvert þeir hugðust halda. 

„Það sem við sáum var að neyðarboðið kom frá norðausturhlíðum Grímsfjalls, á þekktum stað þar sem fólk hefur verið að fara fram af fjallinu,“ segir Friðrik. Hann segir staðsetninguna hafa verið nokkuð nákvæma og vegna ítarlegrar ferðaáætlunar og fleiri þátta hafi verið ljóst frá upphafi hver sendi boðin. 

Hins vegar hafi það verið nokkur ráðgáta af hverju mennirnir tveir, sem eru frá Rúmeníu, hafi verið komnir á þann stað þaðan sem neyðarmerkið barst. „Þeir voru á göngu frá Skálafellsjökli og vestur jökulinn. Þannig að það gat ekki passað við það að þeir hefðu farið fram af fjallinu, þeir voru að ganga í þveröfuga átt, frá austri til vesturs.“

Fóru á jökulinn frá þremur stöðum

Þegar neyðarboðin bárust voru kallaðar út björgunarsveitir frá Hornafirði, Egilsstöðum og af Suðurlandi. „Björgunarsveitarmenn fóru á jökulinn á þremur stöðum; frá Jökulheimum, Skálafellsjökli og Snæfelli.“ Það voru svo sleðamenn frá Hornafirði sem fóru upp Skálafellsjökulinn og voru komnir á svæðið þaðan sem boðin bárust á miðnætti. „Þeir fundu ekkert í fyrstu en svo um tvöleytið í nótt fundu þeir búnað frá mönnunum. Svo finnast þeir um þrjúleytið, þá voru þeir komnir í fönn. Svo kemur það upp úr krafsinu að þeir höfðu lent í snjóflóði á leiðinni upp Grímsfjall.“

Mennirnir höfðu verið á fjallaskíðum er þeir lentu í flóðinu. „Þeir sleppa úr flóðinu og setja neyðarsendinn í gang og grafa sig svo í fönn.“ Hann segir mennina ekki hafa sakað við þetta.

Friðrik segir að snjóflóð eigi það til að falla á þessum slóðum. „Þetta er náttúrlega brött hlíð. Það voru menn frá Jöklarannsóknarfélaginu þarna á mánudaginn og þeir aðvöruðu okkur einmitt með það að það væri snjóflóðahætta í Grímsfjalli.“

Mennirnir voru vel búnir og segir Friðrik þá vana fjallamenn.

Fengu skítaveður

Spurður hvort að veður hafi haft einhver áhrif segir Friðrik að mennirnir hafi fengið „skítaveður við Grímsfjall“. Það hafi líklega orðið til þess að þeir fara útaf leið og fara því upp fjallið í miklum bratta. „Það er stór partur í þessu.“

Friðrik segir að mennirnir hafi verið orðnir verulega blautir og kaldir er björgunarsveitarmenn fundu þá í nótt. „Þeir voru fluttir upp í skálann á Grímsfjalli og þar fengu þeir ný föt. Svo fóru þeir þar upp í björgunarsveitarbíla.“

Líklega með sólsting

Er mbl.is ræddi við Friðrik rétt fyrir klukkan átta í morgun áttu mennirnir enn um fimm tíma ferðalag fyrir höndum ofan af jöklinum og til byggða. Aðstæður til leitar á Vatnajökli voru mjög slæmar til að byrja með að sögn Friðriks. „En veðrið snérist um eittleytið og þá batnaði það mikið. Og nú eru þeir sennilega með sólsting á leiðinni heim.“

Um 150 björgunarsveitarmenn voru kallaðir út til leitar í gærkvöldi og nótt, m.a. sveitir af höfuðborgarsvæðinu. „Við vorum búnir að kalla út alla sleða frá Reykjavík til Hornafjarðar þegar mennirnir fundust,“ segir Friðrik. „Við ákváðum að kalla svo marga út því við fundum ekki mennina strax heldur aðeins búnað þeirra.“

Friðrik segir að mjög góð skýrsla hafi legið fyrir áður en aðgerðir hófust. Þannig hafi verið vitað hverjir væru þarna á ferð, hvaðan þeir lögðu af stað, hvert þeir hygðust fara og hvar þeir hygðust vera á hverjum tíma. „Það er vert að þakka SaveTravel það verkefni.“

Björgunarsveitarmaður að störfum.
Björgunarsveitarmaður að störfum. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert