Mengun olli ertingu í augum og öndurnarvegi

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík tók til starfa 11. nóvember …
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík tók til starfa 11. nóvember 2016. Starfsemin var stöðvuð rúmum 10 mánuðum síðar í kjölfar fjölmargra athugasemda. mbl.is/RAX

Mengun frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík olli mismikilli ertingu í augum og öndunarvegi hjá þeim sem voru með undirliggjandi öndunarvegasjúkdóma. Þetta er niðurstaða sóttvarnalæknis sem skoðaði áhrif á meintri heilsuspillandi mengun frá verksmiðjunni.

Þá var ekki unnt að meta langtímaáhrif því efnasamsetning mengunarinnar var lítt kunn.

Greint er frá niðurstöðunni í nýrri farsóttaskýrslu sem er að finna á vef Embætti landlæknis.

Bárust bæði formlegar og óformlegar tilkynningar frá læknum

Fram kemur, að frá upphafi hafi sóttvarnalæknir hvatt íbúa í nærumhverfi verksmiðjunnar, sem töldu sig hafa orðið fyrir heilsuspillandi áhrifum af völdum mengunar frá henni, að leita til lækna heilsugæslunnar til að fá mat á sínum einkennum.

Sóttvarnalækni bárust bæði formlegar og óformlegar tilkynningar frá læknum um þessar skoðanir og kom í ljós að flestir einstaklinganna kvörtuðu um ertingu í augum og öndunarvegi sem oft var ekki hægt að staðfesta með vissu við skoðun en í öðrum tilfellum komu fram einkenni um roða og ertingu í slímhúðum.

Ekki hægt að staðfesta alvarleg einkenni

Nokkrir einstaklingar með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma kvörtuðu einnig um aukningu á einkennum frá öndunarfærum og þurftu meiri lyfjagjöf en venjulega. Hins vegar var ekki hægt að staðfesta alvarleg einkenni sem rekja mátti til mengunarinnar, að því er fram kemur í skýrslunni.

Sóttvarnalæknir tók saman fjölda greininga ákveðinna öndunarfærasjúkdóma frá Heilsugæslu Suðurnesja þann tíma sem verksmiðjan var starfrækt og greindi ekki aukningu á þessum sjúkdómum. Ennfremur varð ekki vart aukningar á ávísunum astmalyfja til íbúa svæðisins á þessum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert