Mikið álag og væntur skortur á fólki

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á ársfundi spítalans á miðvikudag.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á ársfundi spítalans á miðvikudag. Haraldur Jónasson/Hari

Ársfundur, álag á deildum Landspítalans, yfirvofandi skortur og framtíðarskortur á starfsfólki eru meðal umfjöllunarefna í vikulegum föstudagspistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, í þessari viku.

Ársfundur spítalans fór fram á miðvikudag og í pistlinum lýsir Páll yfir ánægju með fundinn sem bar yfirskriftina „Landspítali í vörn og sókn“. 

Lífið á Landspítala misjafnt

„Þannig er lífið hjá okkur á Landspítala, okkur gengur allt að sólu í meðferð sjúklings einn daginn en daginn eftir virðist allt ætla að fara úrskeiðis. Eins er þetta á deildunum há okkur, allt gengur vel á einni meðan á annarri virðist allt í hershöndum,“ ritar hann.

Mikið álag var á bráðadeild spítalans í vikunni og var legurými á bráðadeild m.a. nánast fullt á ákveðnum tímapunkti.

Í pistli sínum rekur Páll að flæði sjúklinga hafi verið erfitt. Það þýði að sjúklingar hafi þurft að bíða löngum stundum á bráðamóttökum þar til pláss fáist fyrir þá á á viðeigandi deildum. 

Á miðvikudag, þegar álag var sérstaklega mikið, þurfti að rýma fyrir mikið slösuðum sjúklingum vegna alvarlegs umferðarslyss á Suðurlandi. Betur fór en á horfðist, en álagið minnkaði snögglega um það leyti er slysið varð.

Mikill skortur yfirvofandi

Páll fjallar einnig um yfirvofandi skort á starfsfólki í hjúkrun á spítalanum, sérstaklega hjúkrunarfræðingum. 

„Sá skortur er verulega alvarlegur og lýsir sér t.d. í því að um hverja stöðu hjúkrunarfræðings sækja færri en einn,“ ritaði hann og nefndi einnig að mikill skortur væri væntanlegur á sjúkraliðum, lífeindafræðingum,líffræðingum og geislafræðingum.

Nefnir hann að skorturinn sé þó ekki aðeins vandi á Landspítala, heldur á landsvísu og út fyrir landsteinana. 

„Á Íslandi er talið að hundruð hjúkrunarfræðinga vanti til starfa nú þegar, á Englandi er talið að yfir 100.000 hjúkrunarfræðinga skorti og í Bandaríkjunum mun sambærileg tala vera 500.000,“ segir í pistlinum.

„Þetta er meiri háttar áskorun og verðugt verkefni fyrir framsýn stjórnvöld og stjórnendur mennta- og heilbrigðisstofnana,“ ritaði Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert