Óvissa um nafnið þrátt fyrir kosningu

Sandgerðisbær verður hluti af nýju sveitarfélagi með Garði, en óvissa …
Sandgerðisbær verður hluti af nýju sveitarfélagi með Garði, en óvissa er um nafnið. www.mats.is

Forsetar bæjarstjórna Sandgerðis og Garðs eru ekki sáttir við þátttöku í kosningu um nafn nýs sameinaðs sveitarfélags og segja að það komi til greina að skoða nafngiftina á ný. Þátttakan í kosningunni var litil og tæplega helmingur skilaði auðu.

Niðurstaða í kosningu um nafn nýs sameinaðs sveitarfélags Sandgerðisbæjar og Garðs var kynnt í dag. Suðurbyggð fékk 100 atkvæði, Heiðarbyggð 174 atkvæði og 224 skiluðu auðu.  Alls greiddu 500 atkvæði en 2.692 eru á kjörskrá, samkvæmt umfjöllun Víkurfrétta.

Aðeins 18,6% af kosningabærum einstaklingum tóku þátt í atkvæðagreiðslunni og varð Heiðarbyggð fyrir vali 35% þeirra eða 6,5% einstaklinga á kjörskrá. 44,5% þeirra sem greiddu atkvæði skiluðu auðu. Atkvæðagreiðslan er aðeins ráðgefandi fyrir nýja bæjarstjórn í hinu nýja sveitarfélagi.

Til í að skoða málið upp á nýtt

Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar, og Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar Garðs, segja í samtali við mbl.is að kosningaþátttakan hafi ekki verið nógu góð og að ný bæjarstjórn nýs sameinaðs sveitarfélags ætli að skoða málið vandlega áður en nafn sveitarfélagsins verður ákveðið. Þá sögðu báðir að það komi til greina að hefja ferlið upp á nýtt þar sem svo stórt hlutfall hafi skilað auðu og þátttakan hafi verið dræm.

„Það eru engin skýr skilaboð úr þessari kosningu og ný bæjarstjórn þarf að fara vandlega yfir málið áður en einhver ákvörðun er tekin,“ segir Ólafur. Einar segir að hann sé alls ekki ánægður með kosningaþátttökuna, „Það þarf skoða þetta og ræða málið ítarlega. Það kemur vel til greina að skoða málið upp á nýtt, en ég ætla ekki að segja nýrri bæjarstjórn fyrir verkum“

Hugsanlega óánægja með tillögurnar

Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar, segir í samtali við mbl.is að það hefði verið ánægjulegt ef fleiri hefðu tekið þátt í kosningunni. „Mér skilst samt að það hafi ekki endilega verið mikil þátttaka í sambærilegum kosningum,“ segir hún.

Samkvæmt Sigrúnu geta verið ýmsar skýringar á lítilli þátttöku. Meðal annars bendir hún á að mikil fjöldi tillagna hafi borist um nýtt nafn og fólk hafi ekki viljað þær tvær sem urðu fyrir vali bæjarstjórnar og hugsanlega skipti þetta fólki ekki miklu máli. „Svo var þetta rafræn kosning. Það getur haft áhrif, en ég hreinlega veit það ekki,“ segir bæjarstjórinn.

mbl.is