Refsing þyngd yfir öðrum bróðurnum

Úr Landsrétti.
Úr Landsrétti. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur dæmt bræðurna Marcin Wieslaw Nabakowski og Rafal Marek Nabakowski  í þriggja ára og tveggja og hálfs árs fangelsi fyr­ir að skjóta úr hagla­byssu fyr­ir utan versl­un í Efra-Brei­holti í ág­úst árið 2016. 

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Marcin í tveggja ára og sjö mánaða fangelsi í febrúar 2017 og var dómurinn því þyngdur um þrjá mánuði í landsrétti. Héraðsdómur dæmdi sömuleiðis Rafal í tveggja ára og átta mánaða fangelsi, en dómurinn hefur nú verið styttur um tvo mánuði í Landsrétti.

Bræðurnir voru sakfelldir fyrir brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga og ýmsum ákvæðum vopnalaga.

Frá rétt­ar­höld­um yfir Marc­in og Rafal Naba­kowski í héraði.
Frá rétt­ar­höld­um yfir Marc­in og Rafal Naba­kowski í héraði. mbl.is/Golli

Rafal var sakfelldur fyrir að hafa skotið af afsagaðri haglabyssu, skáhallt upp í loftið, í átt að hópi manna og stofna með því á ófyrirleitinn hátt lífi eða heilsu þeirra í augljósan háska og Marcin fyrir að hafa skömmu síðar skotið af sömu haglabyssu á bifreið í um það bil 10 metra fjarlægð, sem tveir einstaklingar voru farþegar í og með því stofnað lífi og heilsu þeirra í stórfelldan háska.

Bræðurnir voru einnig sakfelldir fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga fyrir að hafa í félagi veist að manni með því að skvetta vatnsblönduðu ammoníaki í andlit hans og í kjölfarið draga hann út úr bifreið sem hann var farþegi í og veitast að honum með ofbeldi.

Þá voru þeir einnig sakfelldir fyrir brot gegn 225. gr. almennra hegningarlaga fyrir að hafa í félagi þvingað annan mann með hótunum um ofbeldi til þess að aka með þá á nánar tilgreindan stað.

Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að sú háttsemi bræðranna, sem varðaði brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, hafi verið sérstaklega ófyrirleitin og alvarleg og mikil mildi að ekki hafi hlotist stórfellt líkamstjón eða dauði af.

Bræðurnir játuðu báðir nánar tilgreind umferðarlagabrot sem þeim voru gefin að sök og var Marcin sviptur ökurétti ævilangt og ævilöng ökuréttarsvipting Rafal áréttuð.

Dómur Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert