Ók á Hamborgarabúlluna og stakk af

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnti fjölmörgum útköllum vegna ýmissa mála í gærkvöldi …
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnti fjölmörgum útköllum vegna ýmissa mála í gærkvöldi og nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekið var á Hamborgarabúlluna í Geirsgötu í nótt að því er talið er á miklum hraða. Tveir farþegar bílsins slösuðust en ökumaðurinn stakk af frá vettvangi. Þá var ekið á hjólreiðamann, kveikt í bíl á Rauðarárstíg og blaðapressugámi á Sævarhöfða. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur sinnt þessu og fjölmörgum öðrum verkefnum síðustu klukkustundirnar.

„Það var erilsöm nótt, svo ekki sé meira sagt,“ sagði vaktstjóri Slökkviliðsins er mbl.is hringdi til að spyrja frétta um 6.30 í morgun. 

Hér verður stiklað á því helsta:  

Á fimmta tímanum í nótt var sem fyrr segir ekið á hús Hamborgarabúllunnar í Geirsgötu. „Og ekki í fyrsta skipti,“ benti vaktstjórinn á. Tveir farþegar voru í bílnum er að var komið og var annar þeirra ekki í bílbelti. Sá slasaðist meira en hinn en báðir voru þeir fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Meiðsli þeirra eru þó ekki talin alvarleg. Ökumaðurinn var hins vegar á bak og burt.

Bíllinn hafði lent harkalega á húsinu og er talinn ónýtur. 

Um þrjú leytið í nótt barst svo tilkynning um alelda bíl á Rauðarárstíg. „Það er nokkuð ljóst að það var íkveikja því það fannst bensínbrúsi nokkra metra frá,“ segir vaktstjórinn. Greiðlega gekk að slökkva eldinn. 

Þá varð minniháttar eldur í geymsluskúr í Hafnarfirði í gærkvöldi. Einnig sinnti slökkviliðið útkalli vegna elds í blaðapressu hjá Sorpu við Sævarhöfða og er einnig grunur um í kveikju þar. 

Svo gleymdist að skrúfa fyrir baðkar í íbúð í Vesturbænum um hálf fjögurleytið í nótt. Vatn lak um alla íbúðina. 

Í gærkvöldi var ekið á hjólreiðamann á Hverfisgötunni. Áreksturinn var harður og kastaðist hjólreiðamaðurinn, sem var hjálmlaus, upp á bílinn og brotnaði framrúðan við það. Maðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. 

Þá sinnti slökkviliðið á fjórða tug sjúkraflutninga í nótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert