Að bjarga heiminum smá

Ólafur Egill hefur komið nálægt öllum sviðum leikhússins. Leikstjórn á …
Ólafur Egill hefur komið nálægt öllum sviðum leikhússins. Leikstjórn á hug hans allan sem stendur en einnig hefur hann skrifað mörg handrit, leikið, hannað búninga og sviðsmyndir. mbl.is/Ásdís

Það er ljóst að líf leikarans, leikstjórans og handritahöfundarins Ólafs Egils Egilssonar er stútfullt af ævintýrum. Hann er með mörg járn í eldinum bæði í starfi og í einkalífinu; nýgiftur æskuástinni, nýkominn á fimmtugsaldurinn og nýbúinn að festa kaup á æskuheimilinu.

Vinnan skiptist á milli RÚV, þar sem hann er handritsráðgjafi, og æfinga í Borgarleikhúsinu. En mörg önnur verkefni fylla daginn hans. Hann er nýlentur eftir frumsýningu í Cannes þar sem mynd hans og Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, fékk afar góða dóma og vann SACD-verðlaun fyrir besta handrit á Critic´s week, hliðarhátíð Cannes-kvikmyndahátíðarinnar. Íslenskir áhorfendur fá að berja hana augum í næstu viku.

Leikstjórinn sem hvíslar

Við snúum okkur að ævistarfinu; leiklistinni. Ólafur hefur verið með puttana í nánast öllu sem viðkemur leiklist; leikið, skrifað, leikstýrt, hannað búninga og sviðsmyndir, unnið við atvinnuleikhúsin þrjú, í sjálfstæðum leikhópum sem og í sjónvarpi og kvikmyndum. Ólafur samdi m.a. handritið að söngleiknum Elly ásamt Gísla Erni Garðarssyni sem var sýndur fyrir fullu húsi í vetur og mun halda áfram í haust.

Ertu svona fjölhæfur?

„Framan af var þetta spurning um að hafa í sig og á. Ég gerði búninga og vann í leikhópum áður en ég fór í leiklistarskólann og svo eftir útskrift buðust mér engin hlutverk og þá fór ég að gera leikmyndir. Gerði leikmyndir fyrir stórsýningarnar Fame og Grease og það var heilmikil áskorun. Ég bý að allri þessari ólíku reynslu í dag. Ég fór líka að skrifa og reyna að viða að mér þekkingu í dramatúrgíu, sem okkur vantar eiginlega gott íslenskt orð yfir, en snýr meðal annars að uppbyggingu leiktexta, en þetta hjálpaði mér mikið í vinnunni sem leikari. Sumt gerði ég á sínum tíma af nauðsyn og annað af forvitni en svo fór þetta að næra hvað annað. Að hafa verið aðeins í öllu. Svo bauð Gísli mér að vera með í Rómeó og Júlíu Vesturports og það ævintýri allt saman hófst og leikarastarfið tók dálítið yfir. Ég hélt samt alltaf áfram að skrifa, tók þátt í því að gera fyrstu seríuna af Ófærð, skrifaði fjölmargar leikgerðir, ein sex kvikmyndahandrit og núna í seinni tíð hef ég fengið þónokkur tækifæri til að leikstýra. Og þá kemur þetta allt heim og saman. Ég hef mikla ánægju af því.“

Hvað er það við leikstjórnina sem heillar, er það að fá að stjórna öðrum?

„Já, nei, það er sko örugglega ekki að stjórna öðrum. Ég er meira og minna búinn að gefast upp á því að reyna að stjórna öðru fólki. Svo er það eiginlega ekki rétt að leikstjóri stjórni. Verkstjórnin sjálf er svo lítill hluti af þessu öllu. Hlutverk leikstjórans eins og ég sé það er fyrst og fremst að örva sitt samstarfsfólk; fá alla aðstandendur til þess að líða vel, finna öryggi í því sem þeir eru að gera svo það besta í þeim geti blómstrað.  Þannig að ég lít miklu frekar á mitt starf sem leikstjóri sem einhvers konar leikörvari. Eða leikhvíslari. Ég reyni að vera ekki að ýta fólki heldur vill að hver og einn finni sinn eigin farveg í samhengi við verkið og uppsetninguna, þá geta töfrarnir gerst og allt lifnað við.“ 

Ólafur Egill var á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir stuttu þar …
Ólafur Egill var á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir stuttu þar sem myndin Kona fer í stríð var frumsýnd. Hér er hann með Irynu Danylejko söngkonu sem leikur veigamikið hlutverk í myndinni. Ljósmynd/Aðsend


Leikarastarfið er hugsjónastarf

Hlutverk leikarans er margþætt að sögn Ólafs. „Leikarar eru yfirleitt næmt fólk sem hefur áhuga á mannlegu eðli og mannlegum samskiptum. Þeir vilja líka, svona almennt séð, búa til betri heim; þeir vilja að fólki, okkur, líði betur, að við fáum innsýn inn í eðli okkar og náungans, sjáum lífið í nýju ljósi. Þetta er hugsjónastarf. Við erum að vekja bræður okkar og systur til umhugsunar og láta þau spyrja: Er það svona sem við viljum hafa hlutina? Hvar ert þú staddur, kæri vinur, í þinni vegferð? Er þetta kannski eitthvað sem gæti reynst þér lærdómsríkt, þessi kvöldstund hér? Eða ertu kannski þreyttur og hefur þörf fyrir að láta skemmta þér? Eða má kannski minna þig á að vera þakklátur í lífinu? Þetta er hugsjónastarf, já. Meðal annars.“ 

Er fjallað um hugsjónir í myndinni Kona fer í stríð?

„Já, eins og ég sagði, Benni vildi gera mynd sem bjargaði heiminum smá. Það blasa við okkur risastór verkefni, mannskepnunni. Hvernig við getum haldið áfram að vera til í sátt við jörðina sem við búum á. Hvernig getum við varðveitt hana? Og framtíð afkomenda okkar. Sumir segja að tími aðgerða sé jafnvel liðinn. En jafnvel þótt svo væri, þá verðum við samt að gera eitthvað. Og þetta er kannski mynd sem fjallar um það að finna kraftinn inni í sér. Gefast ekki upp, gera það sem maður getur, hvert einasta handtak í rétta átt hjálpar. Það eru ýmis öfl sem hafa hagsmuna að gæta og vilja að ekkert verði gert. Það þarf að setja stór og mikil spurningarmerki við ýmsa hluti, og svo þarf maður líka að vera til og njóta þess á sama tíma,“ segir Ólafur.

„Kona fer í stríð er einlæg mynd sem ég held að geti snert við okkur öllum.“

Ólafur Egill og Esther Talia eiga börnin Ragnheiði Eyju og …
Ólafur Egill og Esther Talia eiga börnin Ragnheiði Eyju og Egil. mbl.is/Ásdís

Kom næstum nakinn fram

Það er auðvitað ekki langt að sækja hæfileikanna og áhugann en foreldrarnir Egill og Tinna, eru bæði landsþekkt fyrir leik og söng, auk þess sem amma hans Herdís Þorvaldsdóttir var ein ástsælasta leikkona landsins. Leiklist hefur því fylgt Ólafi frá blautu barnsbeini.

„Þetta er fjölskyldufag. Við sjáum mikið leikhús og tölum mikið um það. Ég vissi nokkurn veginn hvað ég væri að fara út í þegar ég sótti um leiklistarskólann. Ég sá þetta ekkert í neinum hillingum. Ég vissi að þetta væri mikil vinna fyrir lítinn pening. Vinnutíminn er ekki sérlega fjölskylduvænn og það er mikil binding í þessari vinnu. Bæði dag frá degi, en sýningardaga er maður yfirleitt alveg undirlagður, og líka til lengri tíma. Leikarar eiga yfirleitt frí um páska og þegar leikhúsin loka á sumrin, en yfir veturinn er maður yfirleitt bundinn í báða skó. Ef þú ferð til leikhússtjóra og biður um frí, jafnvel með marga mánaða fyrirvara, svarar viðkomandi yfirleitt fullur hluttekningar: „við verðum bara að sjá til.““

Er ekkert þreytandi að standa uppi á sviði kannski í sextugasta skipti? Eða finnur maður alltaf einhvern neista?

„Er þreytandi að leggja flísar á enn eitt baðherbergið? Já, alveg örugglega. En ef þú reynir að gera það betur en síðast, setur eitthvað af sjálfum þér í verkið, þá hafa handtökin tilgang og vægi og þá er þreyta aukaatriði. Þetta kemur líka í bylgjum. Ég held ég hafi leikið í næstum því fjögur hundruð sýningum af Rómeó og Júlíu. Í London vorum við að leika á hverjum virkum degi, og tvisvar á laugardegi og tvisvar á sunnudegi. Stundum vissi maður ekkert hvar maður var staddur; er ég búinn að leika þessa senu eða er ég að fara að leika hana? Einu sinni lenti ég í að fara bara í vitlausan búning því mér fannst ég búinn að leika þetta og það væri komið eftir hlé. Þegar ég áttaði mig svo á mistökunum í sviðsvængnum var ekki um annað að ræða en að rífa sig úr búningnum og ég lék senuna á brókinni,“ segir hann og skellihlær.

Var það allt í lagi?

„Já, hvað segir ekki í laginu, allt fyrir frægðina nema að koma nakinn fram. Ég var ekki nakinn, en næstum því. Þetta var dálítið „panikk“. En það tók enginn eftir því, það komu engin kvörtunarbréf. Ég var reyndar að leika Jesú, þannig að það slapp alveg að vera á lendaskýlunni, þó þyrnikórónuna vantaði,“ segir hann og brosir.

Skipulagði óvænt brúðkaup

Ólafur segist hafa kynnst konu sinni, Esther Taliu Casey í bernsku.

„Við kynntumst fyrst um sjö ára aldurinn og urðum par fimmtán ára. Við erum heppin að mörgu leyti, sum svona sambönd ná ekki alla leið og fólk vex sitt í hvora áttina og allt gott um það segja. En við höfum verið sundur og saman og upp og niður en alltaf náð í gegnum erfiðu kaflana. Brot úr hjónabandi sem ég setti upp með hjónunum Unni Ösp og Birni Thors, vinum úr mínum innsta kjarna, var nokkurs konar úttekt og uppgjör á sambandi okkar, og samböndum yfir höfuð. Og þegar það var frá fannst mér vera kominn tími fyrir okkur að gifta okkur, en það gerðum við síðasta vetur. Þá vorum við búin að vera saman í tuttugu og fimm ár,“ segir hann.

„Við giftum okkur á Café París á fertugsafmælinu og partíið stóð fram undir morgun,“ segir Ólafur sem kom Esther á óvart því brúðurin tilvonandi vissi ekki að til stæði að gifta sig þetta kvöld.

Ólafur situr á tröppunum á æskuheimilinu en þau hjón festu …
Ólafur situr á tröppunum á æskuheimilinu en þau hjón festu kaup á húsinu nýlega og eru að gera það upp. mbl.is/Ásdís

„Hún var búin að vera að tala um að ganga í það heilaga, af mörgum praktískum ástæðum, en hún er mjög praktísk. Hún vill hafa borð fyrir báru og vaðið fyrir neðan sig og allt það. Ég sá mér þarna leik á borði. Mig langaði alls ekki í mikla serímóníu, kirkju og allt það, og ég vissi svo sem að Esther var mér sammála svo ég ákvað að koma henni dálítið á óvart í sameiginlegu fertugsafmæli okkar, sem var yfirvofandi á árinu. Þá tók eiginlega við lengsta leikrit sem ég hef tekið þátt í. Leikritið: Æ nei, sleppum þessu bara. Þannig að ég dró úr þessu við hvert tækifæri. Á endanum var hún farin að bjóða það sem málamiðlun að við færum til borgardómara en ég sagðist enn vera tvístígandi. En við vorum búin að ákveða að halda þessa veislu, fertugsafmælin okkar, og buðum öllum vinum, vandamönnum og velunnurum. Samtímis lagði ég á ráðin með mínum nánustu, presturinn tók með sér skrúðann, brúðarvöndur var falinn undir borði og hringar með,“ segir Ólafur.

Enn vissi Esther ekkert hvað stæði til. „Veislustjórinn, Hlynur Páll, stórvinur okkar og lífskúnstner, var beðinn um að tilkynna að ef fólk stæði í þeirri meiningu að þetta væri brúðkaup, þá væri það alls ekki tilfellið. Hér stæði til að fagna fertugsafmæli og það væri nú aldeilis nóg,“ segir Ólafur.

„Svo stigum við Esther á stokk og buðum fólk velkomið en þegar ég fékk orðið bar ég upp bónorðið. Svipurinn á Esther var algjörlega óborganlegur og alveg þess virði að hafa platað hana í nokkra mánuði,“ segir Ólafur og hlær.

„Börnin okkar Eyja og Egill birtust svo með hringana og Pjetur Maack, skáfaðir minn, kominn í fullan skrúða, vöndurinn kom fljúgandi, tíu mínútum seinna vorum við gift. Pabbi tók svo fram gítarinn og spilaði fyrir okkur og hjónabandið var þar með innsiglað.“

Ólafur kom Esther Taliu á óvart og var búinn að …
Ólafur kom Esther Taliu á óvart og var búinn að skipuleggja brúðkaup, henni að óvörum. Þau giftu sig á Café París þegar þau héldu upp á sameiginlegt fertugsafmæli. Ljósmynd/Aðsend


Ítarlegt viðtal er við Ólaf Egil í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert