Andlát: Sveinbjörn Dagfinnsson

Sveinbjörn Dagfinnsson.
Sveinbjörn Dagfinnsson. Ljósmynd/Aðsend

Látinn er í Reykjavík á 91. aldursári Sveinbjörn Dagfinnsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi ráðuneytisstjóri. Hann lést 16. maí síðastliðinn á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.

Sveinbjörn lauk barnaskólagöngu í Austurbæjarskóla. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1947, embættisprófi á fjórum árum frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1952 og las félagarétt við Ludwig-Maximilians-Universität München 1953-54. Hann lauk prófmálum til að flytja mál fyrir héraðsdómi 1955 og hæstarétti 1961 og var þá yngstur hæstaréttarlögmanna á Íslandi.

Sveinbjörn var fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneyti 1954-58, deildarstjóri og síðar skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneyti 1958-73 og síðan ráðuneytisstjóri 1973-95.

Framan af starfsferli sinnti Sveinbjörn jafnframt margvíslegum lögmannsstörfum og var m.a. um árabil lögfræðingur Félags íslenskra atvinnuflugmanna (F.Í.A.)

Sveinbjörn sat í stúdentaráði Háskóla Íslands 1948-49, var formaður Félags frjálslyndra stúdenta 1949-50, sat í stjórn Orators, félags laganema 1950-51, í stjórn Félags ungra framsóknarmanna (FUF) 1954-55 og í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna (SUF) 1955-57, í stjórn Stúdentafélags Reykjavíkur 1956-57, var formaður Byggingasamvinnufélags starfsmanna Stjórnarráðsins 1958-61, sat í yfirkjörstjórn Reykjavíkur 1959-68, í stjórn hestamannafélagsins Fáks 1962-73 og var formaður félagsins 1967-73, sat í stjórn Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs1987-96, var varaformaður Skógræktarfélagsins 1990-96 og formaður stjórnar Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins að Mógilsá 1990-99, formaður Búfræðslunefndar, skv. lögum nr. 55/1978, 1979-92, formaður þriggja nefnda um gerð landgræðsluáætlana 1976-91, sat í yfirmatsnefnd skv. lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði 1982-2007 og sat í og stýrði fjölmörgum nefndum á vegum landbúnaðarráðuneytisins.

Sveinbjörn var heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands, Hestamannafélagsins Fáks og Landssambands hestamannafélaga.

Sveinbjörn fæddist í Reykjavík 16.07. 1927. Hann kvæntist 16.12. 1950 Pálínu Hermannsdóttur, f. 12.09. 1929, d. 4.04. 2018. Þau eignuðust 5 börn: 1) Hermann f. 1951, 2) Vigdísi Magneu f. 1955, 3) Dagfinn Örn f. 1959, d. 1959, 4) Lóu Kristínu f. 1961, 5) Dagfinn f. 1973; 10 barnabörn og 10 barnabarnabörn. Foreldrar Sveinbjörns voru Magnea Ósk Halldórsdóttir f. 11. maí 1897 d. 16. október 1982 og Dagfinnur Sveinbjörnsson f. 26. júní 1897, d. 14. janúar 1974. Systir Sveinbjörns var Anna Þuríður, f. 1936, d. 1983.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert