Um 100 manns hafa leitað í allan dag

Gönguhópar hafa gengið meðfram bökkum Ölfusár í dag.
Gönguhópar hafa gengið meðfram bökkum Ölfusár í dag. mbl.is/Sigmundur G. Sigurgeirsson

Enn er leitað að manninum sem talinn er hafa stokkið út í Ölfusá laust eftir klukkan þrjú í nótt. Ef maðurinn finnst ekki í kvöld verður leitað áfram á morgun, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Um og yfir hundrað björgunarsveitarmenn hafa leitað að manninum í allan dag, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Leitað hefur verið á bátum á ánni og gönguhópar hafa gengið meðfram bökkum hennar.

„Hópar hafa verið að koma og fara, það komu hópar þarna í nótt og snemma í morgun, sem hafa svo farið í hvíld. Menn vilja ekki gera út af við mannskapinn í dag,“ segir Davíð Már í samtali við mbl.is.

Staðan verður tekin í lok dags og leit skipulögð á morgun, verði maðurinn ekki fundinn.

Bátasveitir hafa leitað að manninum á ánni.
Bátasveitir hafa leitað að manninum á ánni. mbl.is/Sigmundur G. Sigurgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert