Ungur Palestínumaður bjargaði Einari

Einar Bárðarson er þakklátur fyrir hjálpina.
Einar Bárðarson er þakklátur fyrir hjálpina. mbl.is/Ómar

Einar Bárðarson, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, er afar þakklátur palestínskum starfsmanni bensínstöðvar sem borgaði fyrir hann úr eigin vasa bensínið á bílinn hans þegar í ljós kom að hann var ekki með peninga á sér.

Hann segir frá því á Facebook-síðu sinni þegar fjölskyldan hans var á heimleið í leiðindaveðri í gærkvöldi og í ljós kom að ekki var nóg bensín eftir á tankinum til að komast alla leið.

Enginn var með peninga á sér, sem varð til þess að starfsmaðurinn greiddi sjálfur fyrir bensínið í gegnum app í símanum sínum.

„Ég var svo snortinn yfir þessu hjá unga manninum og þakklátur af ég vissi ekki hvernig ég átti að haga mér. Ég endurgreiddi manninum fyrir lánið á peningunum og sagðist vera honum innilega þakklátur. Ég spurði hann til nafns og hann sagðist heita Saif. Ég spurði hvaðan hann væri kominn og hann sagði mér að hann væri frá Palestínu.

Þá fékk ég nú bara ryk í augun. Eftir nokkuð erfiða viku sem var við það að enda í því að ég sæti bensínlaus í hávaða rigningu og roki seint á laugardagskvöldi með fjölskylduna með mér. Þá var það ungur maður sem flúið hafði heimalandið sökum átaka og yfirvofandi ógn sem bjargaði mér og andlitinu á mér.

Hann hjálpaði mér án tryggingar og án málalenginga með eigin peningum. Hann lét mér aldrei liða illa eða asnalega yfir því að vera alveg upp á náð og miskunn hans kominn,“ skrifar Einar á Facebook.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert