Sumarbústaðaeigandi kom fólkinu í land

Sumarbústaðaeigendur við Þingvallavatn fóru út á bátum sínum til bjargar …
Sumarbústaðaeigendur við Þingvallavatn fóru út á bátum sínum til bjargar fólkinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Erlendu ferðamennirnir sem liggja þungt haldnir á Landspítalanum í Fossvogi eftir að hafa lent í Þingvallavatni í dag voru við stangveiðar í Hellisvík í landi Villingavatns er slysið átti sér stað. Um er að ræða karl og konu, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar yfirlögregluþjóns á Suðurlandi.

Svo virðist vera sem annað þeirra hafi hrasað og rekið út á vatnið og hitt farið á eftir, að sögn Karls Hólm, sumarbústaðaeiganda við Þingvallavatn. Félagi ferðafólksins, sem var með þeim við veiðar, og sumarbústaðaeigandi við vatnið náðu fólkinu upp úr vatninu.

„Þau voru þrjú saman þarna, hún eða hann dettur og annar aðili ætlar að reyna að synda en örmagnast. Þá fer sá þriðji hlaupandi inn í höfnina sem er hérna og ætlaði að fara að taka bát, en þá kom eigandi bátsins og spurði hvað hann væri að gera og náttúrlega rauk út með honum,“ segir Karl.

Karl segir að hringt hafi verið í hann skömmu seinna og hann beðinn um að koma til aðstoðar á sínum bát.

„Ég hringdi í næsta mann og við rukum út á okkar bátum en þá var sá fyrsti búinn að finna þau bæði. Hann náði fyrst konunni, fór með hana í land og fór svo út aftur og fann manninn og akkúrat í þann mund sem þeir voru að taka manninn um borð þá kem ég að þessu á mínum bát og ég renndi bara í land og lét þá vita, björgunarsveitina, sem var að vatnsetja þá.“

Karl segir að viðbragðsaðilar hafi verið mjög snöggir á staðinn.

Sveinn Kristján yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi staðfestir að utanaðkomandi aðilar á bátum hafi hjálpað til við björgun fólksins úr vatninu, en ferðamennirnir eru enn í lífshættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert