Allir vilja tala við Heimi

Heimir Hallgrímsson er þjálfari ársins.
Heimir Hallgrímsson er þjálfari ársins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allir þessir erlendu fréttamenn vilja tala við Heimi þjálfara og hann er fullbókaður fram yfir kveðjuleikinn við Gana 7. júní. Við höfum þurft að velja og hafna og það þarf að vera eitthvað sérstakt til að við reynum að koma fleirum að. Hann er jú að undirbúa landslið Íslands fyrir þátttöku í lokakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu,“ segir Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi og markaðsstjóri KSÍ.

Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson glaðir í bragði eftir …
Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson glaðir í bragði eftir að HM-sætið var í höfn í haust. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Hann segir að viðtöl við Heimi á þessu ári skipti nú þegar tugum í miðlum frá öllum heimshornum. Auk þessa séu hefðbundnir fjölmiðlaviðburðir eins og blaðamannafundir þar sem Heimir hafi verið í aðalhlutverki. Þá hafi margir erlendir og innlendir miðlar líka heimsótt leikmenn landsliðsins til þeirra félaga.

Ómar segir að erlendir fjölmiðlar sýni íslenska landsliðinu mikinn áhuga og ný erindi berist á hverjum degi. Þegar spjallað var við hann hafði hann nýlega kvatt fulltrúa ríkissjónvarpsins í Argentínu. Stöðin boðaði komu sjónvarpsliðs frá útibúinu í Barcelona hingað til lands í lok mánaðarins.

Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Plássið er að fyllast

„Margir erlendir miðlar fylgdust með fyrstu umferðinni í Pepsi-deildinni og svo verður fjöldinn allur af erlendum stöðvum úr öllum heimshornum á leikjunum við Noreg og Gana í byrjun júní. Við erum að taka við umsóknum um aðstöðu og aðgang að vellinum þessa dagana og þurfum að loka fljótlega því við höfum takmarkað pláss sem er að fyllast,“ segir Ómar.

Hann segir að andstæðingar Íslands í riðlakeppninni sýni mikinn áhuga á Íslandi, sérstaklega Argentína, en einnig Króatía og Nígería. Fjölmargir miðlar frá Suður-Ameríku, Bandaríkjunum, Japan, Kína og Ástralíu hafi lagt leið sína hingað og að sjálfsögðu frá Evrópu. Fyrir Evrópumótið í Frakklandi 2016 hafi athyglin einkum verið frá Evrópulöndum, en nú sé engin álfa undanskilin.

Í mörgum tilvikum sé um fjölmiðla og fréttastofur að ræða sem starfa á heimsvísu, en sjónvarpsstöðvar hafi verið áberandi. Ómar nefnir sem dæmi að frá breska ríkisútvarpinu, BBC, sem sé með margar stöðvar og rásir, hafi komið fólk úr öllum áttum.

Af hverju á þessum stalli?

„Fyrsta spurning er yfirleitt af hverju íslenska landsliðið sé á þessum stalli í heimsfótboltanum,“ segir Ómar. „Við erum með svör á reiðum höndum við mörgum spurningum og tölfræði um knattspyrnuhús, þjálfaramenntun og þess háttar. Þeir sem koma hingað mynda gjarnan æfingar, aðstæður, knattspyrnuvelli og -hús og krakka í fótbolta.

Okkur finnst mikilvægt að taka vel á móti þessu fólki og greiða götu þess eins og við getum. Auk knattspyrnunnar snýst þetta um Ísland og ímynd landsins.“

Auk þessa er sérstök dagskrá þar sem fjölmiðlar hafa aðgang að leikmönnum. Þar sé einkum miðað við íþróttamiðla og „þar á bæ þekkja menn okkar vinnulag og reglur“. Ómar segir að starfið sé hálfgerður línudans á milli þess að þjónusta fjölmiðla vel, en um leið að tryggja að aðgangurinn verði ekki svo mikill að hann trufli íþróttalegan undirbúning.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert