Dúxinn sló met skólameistarans

Erla Ingileif, dúx Framhaldsskólans á Laugum þetta árið.
Erla Ingileif, dúx Framhaldsskólans á Laugum þetta árið. Ljósmynd/Aðsend

„Ég bjóst ekki við þessu, þetta kom mér á óvart,“ segir Erla Ingileif Harðardóttir sem brautskráðist frá Framhaldsskólanum á Laugum með hæstu einkunn sem gefin hefur verið á stúdentsprófi frá skólanum. Erla Ingileif dúxaði með einkunnina 9,51. 641.is greindi fyrst frá.

Lykilinn að góðum námsárangri segir Erla Ingileif vera að leggja sig allan fram, fylgjast vel með í tímum og læra heima.

Erla Ingileif hlaut hin ýmsu verðlaun við brautskráninguna sem fram fór síðastliðinn laugardag. Meðal þeirra voru raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík og menntaverðlaun Háskóla Íslands. Henni býðst því niðurfelling skólagjalda fyrstu önnina í HR og fyrsta árið í HÍ, kjósi hún að sækja sér frekara nám við þessa skóla.

Hlaut verðlaun bæði frá HÍ og HR

Erla Ingileif segir þó ekkert ákveðið í þeim efnum, hvort hún fari í HÍ, HR eða taki hlé frá námi. Í sumar starfar hún hjá hestaleigunni Safari Hestar í Mývatnssveit.

Sá sem átti einkunnametið á undan Erlu Ingileif er sitjandi skólameistari Framhaldsskólans á Laugum, Sigurbjörn Árni Arngrímsson. „Ég var mjög hissa á því,“ segir Erla Ingileif. Sigurbjörn Árni brautskráðist með einkunnina 9,5 fyrir 25 árum síðan.

„Ég veit það nú ekki,“ segir Erla Ingileif og hlær þegar hún er spurð að því hvort hún ætli að feta í fótspor Sigurbjörns.

Hún kveðst hafa átt æðislegan tíma í Framhaldsskólanum á Laugum og hefur ekki tekið ákvörðun um framhaldið. „Ég er opin fyrir öllu,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert