Höfðu neitað bólusetningu

Alls greindust 19 einstaklingar með kíghósta í fyrra. Af þeim voru sex undir tveggja ára aldri en fimm þeirra voru undir þriggja mánaða aldri. Yngstu tvö börnin voru óbólusett. Forráðamenn eins árs gamals barns höfðu neitað barninu um bólusetningu, samkvæmt yfirliti frá sóttvarnalækni. 

Á árinu 2017 greindust 8 einstaklingar með hettusótt. Tengjast þessi tilfelli hettusóttarfaraldrinum sem hófst í apríl 2015 og náði hámarki í júní það ár. Eftir það fjaraði undan sjúkdómnum þegar leið á árið 2015 en fá tilfelli greindust árið 2016. Einstaklingarnir sem greindust árið 2017 voru í sama aldurshópi og þeir sem veiktust árin á undan. Samtals hafa því veikst 94 einstaklingar af völdum hettusóttar í þessum faraldri.

Alls greindust ífarandi pneumókokkasýkingar hjá 28 einstaklingum á Íslandi í fyrra sem eru heldur fleiri en árin á undan. Fjórir einstaklingar á aldrinum 64-90 ára létust af völdum pneumókokkasýkinga á árinu 2017.

Nýgengi sjúkdómsins var hæst í aldurshópnum 60 ára og eldri. Miðað við 2016 hefur nokkuð dregið úr nýgengi sýkinganna hjá þeim sem eru yngri en fimm ára, 60 ára og eldri en aftur aukist hjá þeim sem eru 60 ára og eldri. Í heildina hefur nýgengi ífarandi pneumókokkasýkinga minnkað marktækt eftir að bólusetning gegn sýkingunum hófst árið 2011.

Pneumókokkar eru bakteríur sem geta valdið alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómum, svo sem heilahimnubólgu, blóðsýkingum, lungnabólgu, eyrnabólgu og kinnholusýkingum, einkum hjá yngstu börnunum. Hættulegastir þessara sjúkdóma eru heilahimnubólga og blóðsýkingar. Áður en bólusetning hófst greindust árlega um 11 börn hér á landi með slíkar sýkingar. Með því að bólusetja gegn hættulegustu stofnum bakteríunnar má koma í veg fyrir allt að 90% þessara sjúkdóma. Einnig má ætla að bólusetningin dragi úr bráðum og þrálátum miðeyrnabólgum og lungnabólgum hjá ungum börnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert