Leit hætt við Ölfusá

Um 80 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni í dag.
Um 80 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni í dag. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Leit að karlmanni sem talið er að hafi stokkið í Ölfusá aðfaranótt sunnudags var hætt á sjötta tímanum í dag, samkvæmt upplýsingum frá svæðismiðstöð björgunarsveita.

Um áttatíu björgunarsveitarmenn frá Reykja­vík, Vest­ur­landi, Suður­nesj­um og Suður­landi tóku þátt í leitinni í dag og gengu þeir meðfram ánni og sigldu á bát­um. Drónar voru einnig notaðir við leitina og þá flaug þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar yfir svæðið í kring um há­degi.

Leitinni verður áfram haldið á miðvikudag þar sem útlit er fyrir slæmt veður á svæðinu á morgun. Gunnar Ingi Friðriksson, verkefnastjóri hjá svæðismiðstöð björgunarsveitanna, segir í samtali við mbl.is að leitin á miðvikudag verði minni í sniðum. „Við verðum með minni mannafla og þetta verður meira eftirlit,“ segir Gunnar Ingi. 

Gunnar Ingi segir að engar vísbendingar hafi fundist og að ástandið sé óbreytt. Spáð er suðaustan stormi á Suðurlandi á morgun. Á miðvikudag munu björgunarsveitarmenn á bátum og göngumenn hefja leit á ný. Þyrla Landhelgisgæslunnar mun að öllum líkindum taka áfram þátt í leitinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert