Sárasótt sker sig úr

AFP

Fjöldi tilkynntra klamydíusýkinga á 100.000 íbúa er mestur á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd. Alls greindist klamydíusýking hjá 2204 einstaklingum á Íslandi í fyrra. Þetta kemur fram í farsóttaryfirliti sóttvarnalæknis fyrir árið 2017.

Alls greindist klamydía í 937 hjá körlum en 1249 hjá konum. Ekki var vitað um kyn hjá 18 einstaklingum. Nýgengi klamydíusýkinga hefur haldist nokkuð stöðugt undanfarin 20 ár.

Nýgengi sjúkdómsins er hæst hjá körlum á aldrinum 20-24 ára og konum á aldrinum 15-19 ára.

Hin Norðurlöndin eru einnig með háa tíðni klamydíusmita miðað við önnur Evrópuríki. „Þetta skýrist væntanlega af tíðari sýnatöku á Norðurlöndum. Því er erfitt að meta hvort raunverulegt nýgengi í samfélaginu er hærra hér en annars staðar vegna mismunandi vöktunar og heilbrigðisþjónustu milli Evrópulanda ásamt mun á fjölda sýna sem tekin eru til klamydíugreiningar,“ segir í farsóttaryfirlitinu.

Á árinu 2017 greindust 100 tilfelli af lekanda sem færist enn í vöxt. Aukningin hjá körlum sem voru 68 á árinu er talin tengjast þeim sem hafa mök við karla. Aukning varð einnig meðal kvenna en 32 tilfelli greindust á árinu.

Meðalaldur þeirra sem greindust á árinu 2017 var 32 ár (16–69 ár) hjá báðum kynjum, en karlar voru í miklum meirihluta (68%). Talið er að smit meðal karla tengist samkynhneigð.

Á árinu reyndust sex stofnar bakteríunnar vera ónæmir fyrir ciprofloxacini og tveir fyrir azithromycini. Fjölónæmir stofnar af lekandabakteríum hafa þó ekki greinst hér á landi, en víða erlendis er slíkt sýklalyfjaónæmi vaxandi vandamál. Í Evrópu hafa greinst stofnar sem eru ónæmir fyrir ceftriaxone, en það er eitt helsta lyfið sem hefur verið notað til að meðhöndla einstaklinga með ónæma stofna.

Sárasóttin sker sig úr hvað varðar fjölgun greindra tilfella á árinu 2017 sem er langt umfram það sem greinst hefur undanfarin ár. Á árinu 2017 greindust alls 39 einstaklingar með sárasótt. Af þeim voru 30 karlar (77%) en níu konur (23%). Hlutfallslegur fjöldi karla sem greindist með sjúkdóminn var heldur minni en árin á undan. Meðalaldur sýktra var 34 ár (aldursbil 20‒70 ára). Tólf voru af erlendu bergi brotnir (31%).

Þótt sjúkdómurinn hafi fyrst og fremst verið tengdur körlum sem hafa mök við karla greinist hann einnig meðal kvenna. Tvær þeirra greindust í mæðravernd. Þessi alvarlegi sjúkdómur getur m.a. valdið fósturskaða, segir í farsóttayfirliti sóttvarnalæknis.

28 ný HIV smit

Samtals greindust 28 einstaklingar með HIV-sýkingu á árinu 2017. Meðalaldur hinna sýktu var 35 ár (aldursbil 16‒59 ára). Af þeim sem greindust á árinu voru þrjár konur og 19 voru af erlendu bergi brotnir (67%). Áhættuhegðun tengdist sýkingu hjá samkynhneigðum í 15 tilfellum, gagnkynhneigðum í átta tilfellum og fíkniefnaneyslu í fimm tilfellum. Engin lést á árinu af völdum sjúkdómsins og enginn greindist með alnæmi (AIDS).

14 greindir með berkla

Samtals greindust 14 einstaklingar með berkla árið 2017. Átta af þessum einstaklingum voru af erlendu bergi brotnir (57%). Fjöldi sýktra á árinu 2017 var svipaður og undanfarna tvo áratugi. Þegar litið er til Íslendinga var meðalaldur þeirra 50 ára þetta árið (aldursbil 21 – 80 ára). Er það nokkuð lágur meðalaldur meðal Íslendinga. Einn þeirra lést af öðrum ástæðum en berklum en greindist við Krufningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert