Brugðist við aukinni ásókn í þyrluna

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar …
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sé gert ráð fyrir að fjölga áhöfnum í þyrlunum á næsta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, segir það ekki gott að sú staða geti komið upp að þyrla Landhelgisgæslunnar geti ekki sinnt útkalli vegna manneklu. Sú staða kom upp í gær að vakt­haf­andi þyrlu­sveit upp­fyllti ekki kröf­ur um lág­marks­hvíld vegna anna undanfarna daga og gat því ekki komið til aðstoðar vegna tveggja erlendra ferðamanna sem höfðu lent í Þingvallavatni.

„Svona hafa aðstæðurnar verið í mörg ár, en núna verður breyting á og ég hef lagt á það áherslu að Landhelgisgæslunni verði gert kleift að mæta þessum lögbundnu skyldum sínum sem hún hefur,“ segir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. „Það hefur sýnt sig undanfarin ár að það er meiri ásókn í þjónustu þyrlunnar og þá þurfum við að bregðast við því.“

Það verði gert líkt og komi fram í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, en þar sé gert ráð fyrir að fjölga áhöfnum í þyrlunum á næsta ári. Segir Sigríður fullan skilning hjá ríkisstjórninni á málinu.

Lögreglan á Suðurlandi í forgangi

Verulegt annríki hefur verið hjá lögreglunni á Suðurlandi undanfarna viku og sagði Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi í samtali við mbl.is í síðustu viku að nærri lægi að fjöldi lögreglumanna í Suðurlandsumdæminu öllu dugi fyrir Árnessýslu eina.

Ráðherra samsinnir því að álag sé á lögreglu og björgunaraðila á þessu svæði. „Við þurfum að mæta því og höfum verið að gera það,“ segir Sigríður.

Segir Sigríður stjórnvöld hafa aukið fé til löggæslumála verulega undanfarin misseri. „Sérstaklega hefur lögreglan á Suðurlandi verið í forgangi, ásamt lögreglunni á Suðurnesjum og að einhverju leyti lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún. Stjórnvöld átti sig engu að síður á að gera þurfi enn betur og því verði auknu fé varið til löggæslumála á næstu árum líkt og fram komi í fjármálaáætlun. „Þá verður líka að forgangsraða þar sem fólkið er.“

Sem dæmi um aðgerðir stjórnvalda undanfarið sé líka hálendislöggæsla sem starfrækt hafi verið sl. tvö sumur.“

Verði verulegu fjölgun í lögreglu á næstu árum

Hún bendir á að kerfið þurfi þó að vera sveigjanlegt þannig að hægt sé að bregðast hratt við breyttum aðstæðum, til að mynda ef ferðamönnum hættir að fjölga eða fer jafnvel að fækka. „Þá þurfa menn að vega og meta hvar þörfin er. Ég hef nefnt það sem dæmi varðandi hálendisgæsluna hvort að það sé þörf á henni frekar en löggæslu á vegum úti í þessu umdæmi. Þetta þarf að skoða með reglulegum hætti og ég treysti því að lögreglustjórar forgangsraði í sínum umdæmum,“ segir Sigríður.

Spurð hversu mikilli fjölgun lögreglumanna stefnt sé að bendir Sigríður á að fjölgun lögreglumanna þurfi að haldast í hendur við nýliðun í stéttinni. „Því lögreglumenn falla ekki af himnum ofan og í dag eru gerðar auknar kröfur um menntun og þjálfun,“ segir hún.

Mjög góð aðsókn sé hins vegar að lögreglunáminu nú og það skipti máli. „Við höfum náð að fjölga umfram það sem var áætlað. Um 50 manns útskrifast á næstu árum og við þurfum að halda þeim dampi því við erum að horfa til þess að það verði veruleg fjölgun í lögreglunni næstu misseri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert