Enn óvissa um kjörskrá í Árneshreppi

Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins og var talið grunsamlegt hversu …
Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins og var talið grunsamlegt hversu margir fluttu lögheimilið sitt þangað í aðdraganda kosninga. mbl.is/Golli

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, staðfestir við mbl.is að hreppsnefnd mun funda í kvöld klukkan 20:00 til þess að samþykkja kjörskrá vegna kosninganna á laugardag. Þjóðskrá er enn með lögheimilisflutninga 6 einstaklinga til skoðunar.

Vegna óvenjulegs fjölda lögheimilisflutninga til Árneshrepps hefur Þjóðskrá rannsakað flutningana og fellt niður 11 þeirra 18 flutninga sem voru til skoðunar hjá stofnunninni. Einn óskaði sjálfur eftir að skráning lögheimilis yrði leiðrétt og 6 flutningar bíða enn afgreiðslu stofnunarinnar.

Í lögum um kosningar til sveitarstjórna kemur fram að aðeins þeir sem hafa náð 18 ára aldri og jafnframt hafi lögheimili í sveitarfélaginu, að minnsta kosti þrjár vikur fyrir kjördag, skuli vera á kjörskrá. Ógilding lögheimilisflutninga af hálfu Þjóðskrár hefur þess vegna sett spurningamerki við réttmæti kjörskrár í Árneshreppi.

Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti kjörskrá í síðustu viku, þó með fyrirvara vegna rannsóknar Þjóðskrár. Nefndin fundar um málið í kvöld.

Fram hefur komið í umfjöllun mbl.is að lögheimilisflutningarnir geta varðað við ákvæði laga um kosningaspjöll. Eva segir við mbl.is að hvorki hún né hreppsnefnd mun hafa frumkvæði að því að kæra lögheimilisflutningana.

Sýslumaður hefur ekki gripið til aðgerða

Lög um kosningar til sveitarstjórna kveða á um að sýslumaður skuli, jafnskjótt og hann fær vitneskju um að ákvæðum laganna hafi ekki verið fylgt, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kjörskrá verði tafarlaust samin og leiðrétt það sem skort hefur á að færi lögum samkvæmt.

Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum, segir í samtali við mbl.is að til þessa hefur ekki verið haft samband við embættið vegna stöðu kjörskrár í Árneshreppi og hefur að svo stöddu ekki verið ákveðið að grípa til sérstakra aðgerða af hálfu sýslumannsembættisins.

Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum.
Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert