Helmingurinn andvígur veggjöldum

mbl.is/Ómar

Helmingur landsmanna er andvígur innheimtu veggjalda til þess að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem MMR gerði dagana 13.-19. apríl og birtar voru í dag. Tæpur þriðjungur, eða 31,4%, er þeim fylgjandi.

Fram kemur í fréttatilkynningu að stuðningur við innheimtu veggjalda hafi aukist lítillega á milli ára eða um 6%, en 25,4% hafi lýst sig hlynnt slíkri gjaldtöku í hliðstæðri könnun MMR í apríl 2017. Hlutfall andvígra hafi að sama skapi minnkað um tæp 6% á milli ára.

Minnst andstaða er á meðal fólks á aldrinum 18-29 ára (41%) og að sama skapi mestur stuðningur (36%). Mest andstaða reyndist á meðal fólks á aldrinum 30-49 ára (56%) og á aldrinum 50-67 ára) 51%. Stuðningur jókst með auknum tekjum og menntun.

Mest andstaða er við veggjöld á meðal stuðningsmanna Miðflokksins (63%), Flokks fólksins (63%) og Pírata (60%) en mestur stuðningur á meðal stuðningsfólks Viðreisnar (47%) og Sjálfstæðisflokksins (45%).

Niðurstöðurnar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert