Málið mjög umfangsmikið

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Ómar Óskarsson

Málið varðandi meint samkeppnislagabrot Eimskips og Samskipa er mjög umfangsmikið að sögn Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara. Fara hafi þurft í gegnum mikinn fjölda skjala sem skýri þann tíma sem rannsókn málsins hafi tekið.

Ólafur segir ekki mikið um málið að segja á þessari stundu. Verið sé einfaldlega að vinna í því og síðan verði að koma í ljós hvað komi út úr því. Eins og Morgunblaðið greindi frá í dag hafa fjórir menn stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara í málinu.

Mennirnir eru Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa á Íslandi, Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskip Logistics, Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, og Bragi Þór Marinósson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips.

Ætluð brot þeirra varða við 10. og 11. greinar samkeppnislaga um samráð og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Samkeppniseftirlitið framkvæmdi húsleit á starfsstöðvum félaganna 10. september 2013 vegna meintra brota á umræddum lagagreinum.

Málið er enn til rannsóknar hjá Samkeppnisstofnun en Ólafur segir að það eigi við um þann hluta þess sem snúi að fyrirtækjunum en það sem snýr að einstaklingunum sé á borði héraðssaksóknara. Ákveðið samstarf eigi sér stað til þess að tryggja að ekki sé verið að vinna í sama hluta málsins á tveimur stöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert