„Þetta er bara spennandi verkefni“

Ingólfur Sigurðsson knattspyrnumaður.
Ingólfur Sigurðsson knattspyrnumaður. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef verið að ræða við þá undanfarnar vikur og mánuði og þeir ætla að koma hingað í kringum seinni tvo leiki Íslands á mótinu,“ segir Ingólfur Sigurðsson knattspyrnumaður í samtali við mbl.is en aðstandendur Netflix-þáttaraðarinnar Religion of Sports eru væntanlegir til Íslands í sumar til að taka upp þátt þar sem fjallað verður um Ingólf.

„Ég veit ekki nákvæmlega hvað leiddi til þess að þeir höfðu samband við mig,“ segir Ingólfur aðspurður. „En þeir vildu kanna hvort það væru einhverjar forvitnilegar sögur frá Íslandi þar sem landið er að fara að taka þátt í heimsmeistaramótinu. Þeir vilja líka segja frá minni sögu, þeir fjalla gjarnan um íþróttir frá öðrum vinkli en venjulega.“

Ingólfur var aðeins fimmtán ára þegar hann greindist með kvíðarösk­un. Hann var þá á mála hjá hollenska félaginu sc Heerenveen en þurfti fljótlega að snúa heim vegna veikindanna. Í tvö önnur skipti reyndi hann sig við atvinnu­mennsku í greininni en það fór á sama veg. Hann hélt veikindunum lengi leyndum en steig loks fram í ítarlegu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í mars 2014 og hefur síðan fjallað opinskátt um þau.

„Þetta er bara spennandi verkefni. Það verður gaman að taka þátt í þessu og ekkert mál að segja mína sögu. Ég geri það alltaf með það fyrir augum að það geri vonandi eitthvað gott,“ segir Ingólfur og bætir við aðspurður að hann verði í tökum í átta eða níu daga. Hann segir þættina verða sýnda í desember á sjónvarpsstöðinni DirectTV og fari síðan á Netflix.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert