Rifu niður asbest án hlífðarbúnaðar

Grensásvegi 12 hefur áður verið lokað.
Grensásvegi 12 hefur áður verið lokað. mbl.is/Árni Sæberg

Byggingarvinnustaðnum við Grensásveg 12 var lokað 9. maí síðastliðinn og öll vinna bönnuð á verkstað eftir að í ljós kom að asbest hafði verið fjarlægt úr húsinu, án þess að sótt hefði verið um tilskilin leyfi og viðeigandi búnaður væri til staðar. Var lífi og heilbrigði starfsmanna talin hætta búin af asbestmengun. Vinnustaðurinn var hins vegar opnaður aftur um hádegi í dag eftir að leyfi hafði fengist til framkvæmdanna. Þetta fékk mbl.is staðfest hjá Vinnueftirlitinu. Vinnustaðnum hefur áður verið lokað vegna athugasemda við öryggi og aðbúnað.

„Við fengum vísbendingu um að það væri verið að fjarlægja asbest, en það eru ákveðnar reglur sem þarf að fara eftir varðandi asbestið. Fólk þarf að sækja um og fá leyfi og senda okkur áætlun um verkið. Það hafði ekki verið gert þannig við fórum á staðinn, sáum að það var verið að rífa asbest og við lokuðum,“ segir Svava Jónsdóttir hjá Vinnueftirlitinu. Í framhaldinu sótti verktakinn um leyfi. „Það voru aðilar sem hafa þar til gerð réttindi sem sóttu um leyfi með verklýsingu, þannig það búið er að aflétta banninu.“ Vinnueftirlitið grípur ekki til frekari aðgerða vegna brota á reglugerð um bann við notkun asbests á vinnustöðum, að sögn Svövu, en heilbrigðiseftirlitinu var einnig gert viðvart.

Asbest er hættulegt efni og var allsherjarbann lagt við notkun þess á Evrópska efnahagssvæðinu 1. janúar 2005. Því þarf sérstakt leyfi og ákveðna kunnáttu til að meðhöndla það.

Meng­un­ar­mörk fyr­ir asbest eru mjög lág eða aðeins 0,1 asbestþráður í rúm­senti­metra en jafn­vel þó að meng­un mæl­ist und­ir mörk­um á asbest­vinnustað þarf samt sem áður að klæðast viðeig­andi hlífðarbúnaði.

Þá er mik­il­vægt að standa rétt að förg­un asbestsúr­gangs og óheim­ilt er að farga asbesti nema að fengnu leyfi heil­brigðis­nefnd­ar viðkom­andi sveit­ar­fé­lags að feng­inni um­sögn Um­hverf­is­stofn­un­ar.

„Asbest er krabbameinsvaldandi þegar til lengri tíma er litið, en það er ekki hættulegt hér og nú. Þeir sem hafa heimild þurfa að fara á námskeið til að læra um hættuna, þær persónuhlífar sem þarf að nota, hvernig þeir rífa þetta niður og ganga frá í lokuð ílát þegar það er flutt á milli. Í skýrslunni kemur fram að hvorki hafi verið til staðar réttur búnaður né leyfi,“ segir Svava og vísar til skýrslu eftirlitsmanns vegna Grensásvegar 12.

Verið er að breyta húsnæðinu við Grensásvegi 12 úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem vinnustaðnum er lokað vegna þess að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna er ekki í samræmi við lög. Þann 16. nóvember síðastliðinn var bann lagt við allri vinnu á staðnum vegna athugasemda eftirlitsmanns Vinnueftirlitsins við öryggi og aðbúnað. Þá hafði eftirlitinu ekki verið tilkynnt um verkið, sem er grundvallaratriði þegar unnið er að byggingu stærri mannvirkja. Einnig kom í ljós við skoðun Samiðnar, sambands iðnfélaga, undir lok síðasta árs, að kjör starfsmanna sem störfuðu á vinnustaðnum voru undir lágmarkslaunum og ekki var til staðar byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum. Verktakafyrirtækið Hraunbrekka ehf. ber ábyrgð á verkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert