Sagði Landsréttarmálið dæmi um spillingu

Frá málstofunni í dag.
Frá málstofunni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, nefndi Landsréttarmálið og umræðuna um ferðakostnað þingmanna sem dæmi um hve hægt gengi að vinna gegn spillingu á Íslandi á opinni málstofu í Hörpu í dag undir yfirskriftinni Reynsla Íslands af baráttu gegn spillingu á meðal þingmanna.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafði skömmu áður flutt ræðu á málstofunni. Þórhildur, sem er einnig varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsins, gagnrýndi embættisfærslur Sigríðar í Landsréttarmálinu.

Málstofan var hluti af fundi Laga- og mannréttindanefndar Evrópuþingsins í Hörpu sem hófst í gær og lýkur í dag. Fundinn sitja fimmtíu þingmenn frá 33 Evrópuríkjum. Fjallað var um framfylgd Íslands á tilmælum úr fjórðu úttekt GRECO, samtaka ríkja Evrópuráðsins gegn spillingu.

Rakti aðdraganda hrunsins

Þórhildur Sunna rakti það sem gerðist í aðdraganda hrunsins hérlendis og hvernig var unnið úr þeirri reynslu. 

Hún sagði lítið hafa breyst á Íslandi hvað spillingu varðar síðan úttekt frá GRECO um spillingu hérlendis kom út árið 2013.

Þórhildur Sunna sagðist hafa vonað að Íslendingar hefðu lært meira af hruninu og breytt fleiru. Sem dæmi um hve hægt gengi í takast á við spillingu á Íslandi nefndi hún Landsréttarmálið og umræðuna um ferðakostnað þingmanna.

Hún hvatti þingmennina á fundinum til að gera ekki lítið úr vandamálum tengdum spillingu á Íslandi þótt hún hafi mælst lítil. Það hjálpi ekki í baráttunni gegn spillingu í okkar litla samfélagi.

Þórhildur Sunna og Sigríður í Hörpu.
Þórhildur Sunna og Sigríður í Hörpu. mbl.is/Árni Sæberg

Lítil spilling á Íslandi

Sigríður sagði í ræðu sinni að mælingar hafi sýnt að spilling sé einna minnst í heiminum á Íslandi.

Hún sagði hrunið hafa grafið undan trausti hérlendis gagnvart stjórnvöldum og sagði þjóðina enn berjast við þau sálrænu áhrif sem kreppan hafði.

Sigríður sagði mútur ekki þekkjast í opinberri umræðu á Íslandi. Þótt ástandið hérlendis sé gott sé ekki þar með sagt að ekki sé pláss til að bæta sig. Hún sagði stjórnvöld jafnframt hafa lagt sig fram við að auka gegnsæi.

Spilling á lægra stigi

Jón Ólafsson, formaður Gagnsæis og formaður stýrihóps forsætisráðuneytisins um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu, flutti einnig erindi.

Hann sagði umræðu um stór spillingarmál ekki vera áberandi hérlendis en nefndi í staðinn að hér ríkti öðruvísi tegund spillingar sem væri á lægra stigi. Sú tegund væri engu að síður hættuleg og nefndi hann Landsréttarmálið sem dæmi um það.

Hann sagði það verða erfitt fyrir ráðherra í framtíðinni að bregða frá tilmælum nefnda, líkt og Sigríður gerði í Landsréttarmálinu, af ótta við afleiðingarnar sem það gæti haft. Það gæti orðið til þess að ráðningarnar í nefndirnar yrðu pólitískar í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert