Staða skólameistara VA enn ekki auglýst

Neskaupstaður í Fjarðabyggð þar sem Verkmenntaskóli Austurlands er staðsettur.
Neskaupstaður í Fjarðabyggð þar sem Verkmenntaskóli Austurlands er staðsettur.

„Ef allt væri eðlilegt þá ætti að vera búið að ráða nýjan skólameistara um þessar mundir svo hann gæti eytt júní og fram að starfslokum skrifstofunnar í það að koma sér inn í nýtt starf og vera klár þegar skólastarfið byrjar aftur,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson sem fyrir hönd Kennarafélags Verkmenntaskóla Austurlands hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneytinu bréf.

Ástæða bréfsins er sú að staða skólameistara við skólann hefur enn ekki verið auglýst þrátt fyrir að sitjandi skólameistari hafi látið vita af því að hann ætlaði ekki að framlengja starfstímabil sitt fyrir rúmum tveimur mánuðum.

„Ekkert gerist í málum okkar skóla“

„Svíður það okkur kennurum og starfsmönnum að sjá stöður skólameistara auglýstar við Fjölbrautaskólann við Ármúla og Menntaskólann í Hamrahlíð, en ekkert gerist í málum okkar skóla,“ segir í bréfi til ráðuneytisins.

Ágúst segir ráðuneytið þó einnig hafa dregið lappirnar varðandi auglýsingar fyrir skólameistara í Ármúla og Hamrahlíð, þær hafi komið seint inn.

„Ég átta mig ekki á því,“ segir Ágúst um ástæður þess að ekki sé búið að auglýsa stöðuna.

Skólameistari þrýst á ráðuneytið án árangurs

„Eins og staðan er núna munu kennarar og starfsfólk skólans byrja skólaárið 2018-19 án skólameistara sem er ekki boðlegt fyrir skólann. Kennarafélagið skorar því á ráðuneytið að auglýsa stöðuna strax svo nýr skólameistari hafi tækifæri til þess að komast inn í nýtt starf áður en kennarar og annað starfsfólk mætir til vinnu í ágúst,“ segir í bréfinu.

Bréfið er dagsett þann 18. maí en engin svör hafa borist frá ráðuneytinu. Því hefur kennarafélagið gripið til þess ráðs að vekja athygli fjölmiðla á málinu. Þá mun skólameistarinn sjálfur hafa þrýst bæði á ráðherra og ráðuneytið um að staðan verði auglýst án árangurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert