Stálu og veltu bifreið

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Tvær ungar konur voru handteknar í Vestmannaeyjum að morgni dags í gær, þriðjudaginn 22. maí, vegna gruns um ölvun við akstur og nytjastuld á bíl. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar í Vestmannaeyjum á Facebook.

Bifreiðin sem stúlkurnar voru í valt utan vegar við Klauf, en þær hlutu ekki alvarleg meiðsli. Önnur þeirra kvartaði þó yfir eymslum í hálsi eftir slysið.

Þær voru látnar lausar eftir skýrslutöku en málið er í rannsókn.

Þá voru þrír aðrir ökumenn stöðvaðir í Vestmannaeyjum um helgina grunaðir um ölvun við akstur, auk þess sem einn þeirra var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá fannst í fórum hans smáræði af ætluðu kókaíni.

Í síðustu viku var maður stöðvaður við komu Herjólfs og við leit á honum fundust um 20 gr. af kókaíni auk íblöndunarefna. Málið er í rannsókn.

Áður hafði verið greint frá handtöku tveggja manna við skemmtistaðinn Lundann á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert