Talinn hafa ekið öfugum megin

mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur staðfest farbannsúrskurð Héraðsdóms Suðurlands yfir erlendum ferðamanni sem var ökumaður bifreiðar sem lenti í árekstri við bifreið sem kom úr gagnstæðri átt skammt vestan gatnamóta við Landeyjahafnarveg í Rangárþingi eystra með þeim afleiðingum að ökumaður hinnar bifreiðarinnar lét lífið.

Fram kemur í rökstuðningi Landsréttar að ferðamaðurinn sé grunaður um að hafa valdið mannsbana af gáleysi sem varðar allt að sex ára fangelsi. Bent er á að maðurinn, sem er bandarískur ríkisborgari með lögheimili í Flórídaríki, hafi engin tengsl við landið og að farbanninu sé markaður hóflegur tími. Farbannið er til 15. júní.

Maðurinn heldur því fram að hann hafi ekki verið valdur að slysinu. Tveir farþegar hans voru sofandi og vöknuðu þegar það átti sér stað. Hefur maðurinn sagt að hann telji að hinni bifreiðinni hafi verið ekið á öfugum vegarhelmingi. Rannsókn lögreglunnar bendir hins vegar til þess að maðurinn hafi þvert á móti verið á röngum helmingi.

„Með hliðsjón af alvarleika þeirra brota sem kærða séu gefin að sök teljist að mati lögreglu uppfyllt skilyrði til að honum verði bönnuð för af landinu á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og eftir atvikum dómstólum, enda megi eins og áður segir ætla að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar,“ segir í dómi héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert