Víkingaklappið ekki í hættu

Tólfan mun leiða víkingaklappið í sumar. Með trommum.
Tólfan mun leiða víkingaklappið í sumar. Með trommum. mbl.is/Golli

Íslendingar og aðrir stuðningsmenn íslenska landsliðsins í knattspyrnu þurfa ekki að óttast að hið alræmda víkingaklapp Tólfunnar, stuðningsmannasveitar landsliðsins, muni ekki heyrast á leikjum Íslands á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar, vegna skorts á trommum.

Víðir Reynisson, öryggisfulltrúi KSÍ, segir að það sé algjör óþarfi að hafa áhyggjur af því að Tólfan fái ekki að taka trommur með inn á leikvanga í Rússlandi.

Almennt sé stuðningsmönnum bannað að taka hljóðfæri og fána inn á leikvanga en sótt sé um leyfi fyrir sérstakar stuðningsmannasveitir, líkt og Tólfuna, og þær fái yfirleitt heimildir til þess.

Misskilningur skapaðist eftir að Fréttablaðið sagði frá því að trommur og fánar yrðu bannaðar á HM en Víðir hefur slegið allt slíkt út af borðinu og segir reglurnar ekki nýjar af nálinni heldur almennar reglur sem hafa verið í gildi lengi t.d. á Evrópumótinu í Frakklandi fyrir tveimur árum.

KSÍ bíður nú eftir því að Tólfan klári að láta merkja trommurnar svo að hægt sé að senda myndir með umsókninni um leyfi.

„Við þurfum að vera með myndir, stærðir og nákvæmari upplýsingar um allt saman og þá fáum við að fara með þetta inn,“ bætir áhyggjulaus Víðir við.

Leikmenn íslenska landsliðsins á sigurstundu.
Leikmenn íslenska landsliðsins á sigurstundu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert