Stofnaði lífum vegfarenda í hættu

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðssaksóknari hefur ákært mann um þrítugt fyrir fjölda hegningar- og umferðarlagabrota sem hann er talinn hafa framið með því að aka stolinni bifreið undir áhrifum fíkniefna þannig að hann stofnaði lífum farþega bílsins og annarra vegfarenda í hættu, þar á meðal lögreglumanna sem reyndu að stöðva aksturinn.

Maðurinn er ákærður fyrir hættu- og umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum MDMA og amfetamíns án nægilegrar tillitssemi og varúðar.

Í ákæru er því lýst þannig að ákærði hafi ekki virt umferðarmerki, aukið hraðann og ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótum Lækjargötu og Skólabrúar án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu. Hann hafi ekið á mikilli ferð, gegn einstefnu og upp á gangstétt til að komast fram hjá bifreið sem ekið var á móti honum við Laufásveg.

Eftirför lögreglu hélt áfram um miðbæ Reykjavíkur m.a. eftir Miðstræti, að Grundarstíg og áleiðis að Óðinsgötu. Ákærði virti ítrekað að vettugi stöðvunarskyldu, einstefnuskilti og almennar umferðarreglur.

Við Suðurhlíð ók maðurinn upp á umferðareyju milli akreina og ók á móti bifreiðum úr gagnstæðri átt á tíma þegar töluverð umferð var um svæðið. Hann staðnæmdist loks á grasflöt við Veðurstofuna og yfirgaf bifreiðina.

Meint brot mannsins geta varðað allt að 6 ára fangelsi.

Nytjastuldur og hylming

Að auki var maðurinn ákærður fyrir nytjastuld fyrir að hafa ekið bifreiðinni án heimildar eiganda eftir að hafa komist yfir lykla hennar. 

Að lokum var hann ákærður fyrir hylmingu með því að hafa haft í vörslum sínum ýmsa muni.

Þar á meðal voru GPS-staðsetningartæki, 66°Norður úlpa, ýmsar gerðir af lyklum og bílskúrshurðaropnari, hamar og tveir hnífar, hársnyrtivörur, fern sólgleraugu, eitt vegabréf og 5 debet- og kreditkort og tvö ökuskírteini í eigu ýmissa aðila og lyfseðil fyrir lyfinu Risolid.

Munirnir fundust í hinni stolnu bifreið og telur héraðssaksóknari að ákærði hafi vitað að um þýfi hafi verið að ræða og þannig haldið mununum ólöglega frá eigendum sínum. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingu ökuréttinda.

Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert