Fangelsi fyrir að nauðga vinkonu

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Karlmaður var í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að nauðga vinkonu sinni og til þess að greiða henni 1,8 milljónir króna í miskabætur auk vaxta. Þá var hann dæmdur til þess að greiða tæplega 2,5 milljónir króna í málskostnað.

Brotið átti sér stað í september 2014 en konan kærði manninn ekki fyrr en í febrúar 2017. Hún hafi gist á heimili mannsins á meðan kærasti hennar var á sjúkrahúsi. Sagðist hún hafa vaknað um nóttina við það að maðurinn væri að eiga við hana mök.

Þau höfðu verið saman í grunnskóla og haldið sambandi síðan. Kvöldið áður höfðu þau átt trúnaðarsamtal og bæði verið orðin ölvuð. Maðurinn hafnaði því að hafa nauðgað konunni en hafði þó áður viðurkennt fyrir bæði henni og fólki nákomnu honum að hafa gert það.

Sagðist hann hafa brugðið við lýsingu konunnar og talið réttast að gangast við því sem hann væri sakaður um og biðjast fyrirgefningar. Síðar hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að lýsing hennar væri röng. Dómurinn taldi hins vegar framburð konunnar trúverðugan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert