Heggur nærri rigningarmetinu í maí

Útlit er fyrir nær samfellda rigningu á kjördag og svo …
Útlit er fyrir nær samfellda rigningu á kjördag og svo kann að fara að úrkomumet í maí falli. mbl.is/Styrmir Kári

Er rigningarmetið í Reykjavík í maí virkilega að fara að falla? Þessu veltir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur fyrir sér í færslu á Facebook-síðu sinni og telur ekki ólíklegt að svo geti farið. Núverandi met, 126 mm, er frá 1989 en fyrra met, 122 mm, var skráð 1896.

„Þetta gæti allt eins orðið ef spár ganga eftir,“ segir Einar í samtali við mbl.is. Spár eru orðnar nokkuð nákvæmar, enn á þó eftir að koma í ljós hversu mikil rigning mun mælast í Reykjavík næstu daga. „Það er útlit fyrir um 20 mm á laugardaginn og tæplega það á sunnudag. Svo kannski 5 mm á mánudag og svo eitthvað svipað á þriðjudag. Þegar við leggjum þetta saman við þá 83 mm sem voru komnir í gærmorgun, þá fer þetta að höggva nærri þessi meti,“ segir hann.

Útlit er hins vegar fyrir litla úrkomu í dag og eitthvað örlítið meira á morgun. „Við gætum jafnvel verið að upplifa þurran dag í dag sem er nú kærkomið,“ bætir Einar við.

Úrkomumetið í maí er ekki nema 29 ára gamalt og segir Einar kunnuglega veðurlýsingu blasa við þegar maí 1989 er skoðaður „Tíðin var talin þokkaleg á stöku stað um austanvert landið, en annars var kalt, umhleypingasamt og suðvestanlands var fádæma úrkomusamt. Í Reykjavík hefur ekki mælst jafnmikil úrkoma í maí frá því að mælingar hófust 1920,“ les hann og bætir við til útskýringar að þó að mælingar séu viðurkenndar allt frá 1896 þá hafi þær ekki verið alveg samfelldar í fyrstu.

Maí 1989 hafi því verið sambærilegur við þann mánuð sem íbúar suðvestanlands hafa upplifað undanfarið. „Hann var raunar kaldari,“ segir hann og kveður maí það árið hafa verið hluta af kalda tímabilinu sem lauk ekki fyrr en nokkrum árum síðar.

Skrúfað fyrir kranann suðvestanlands

Spurður hvort að ekki fari að horfa til betri vegar í veðurhorfum landsmanna, segir hann svo vel kunna að fara. „Það má segja að þetta lágþrýstiskeið með úrkomu hafi hafist í lok apríl og standi enn, þó að það hafi ekki verið alveg einsleitt veðurfar allan tímann. Það sem þó hefur einkennt það eru miklir suðvestanvindar úr háloftunum sem bera þessar lægðir hér yfir, sem og hvert úrkomusvæðið á fætur öðru sunnan- og vestanlands á meðan að fjöllin hafa rifið frá og valdið hnúkaþey einn og einn dag fyrir norðan, þar sem þó hefur verið sólríkara.“

Langtímaspár nú bendi hins vegar til þess að miklar líkur séu á að það muni skipta um gír í veðurlaginu upp úr miðri næstu viku. Spárnar séu þó ekki alveg á einni línu um það hvað taki við.

„Það er þó alla vegna hærri maí loftþrýstingur eins og við erum vön á þessum árstíma,“ segir Einar. „Kannski það verði bara háþrýstisvæði hér yfir, eitthvað mildara loft, hægari vindur og sólríkara. Það verður að minnsta kosti að mér sýnist að mestu skrúfað fyrir kranann hér suðvestanlands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert