Hugsað til að létta ráðherra lífið

Birgir Ármannsson alþingismaður.
Birgir Ármannsson alþingismaður. mbl.is/Eggert

Fulltrúi í dómnefnd um hæfi dómara lét þess getið í umræðum í málstofu á lagadeginum í lok síðasta mánaðar að nefndin hefði valið þá leið að meta 15 umsækjendur hæfa í 15 embætti Landsréttardómara til þess að létta dómsmálaráðherra lífið svo hann þyrfti ekki sjálfur að velja á milli umsækjenda og hætta sér þannig út í pólitískar deilur.

Þessu greinir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá á Facebook-síðu sinni í kvöld í tilefni af dómi Hæstaréttar í dag þar sem staðfest var að Arnfríður Einarsdóttir, dómari við Landsrétt, hefði verið hæf til þess að dæma í málinu. Verjandi í málinu taldi Arnfríði vanhæfa vegna þess hvernig staðið var að skipun hennar.

„Ef marka má þessi ummæli má alveg draga í efa, að ákvörðun nefndarinnar um að mæla með nákvæmlega 15 umsækjendum í 15 stöður hafi byggt á mjög nákvæmum vísindum,“ segir Birgir ennfremur. Bendir hann á að aðferðafræði dómnefndarinnar hafi verið umdeild og ítrekað verið rætt hvort nákvæmlega 15 umsækjendur hafi verið hæfir.

„Velta má fyrir sér hvernig dómnefndin sjálf leit á málin. Í þeirri tillögu sem hún skilaði dómsmálaráðherra voru 15 taldir hæfastir en aðrir ekki, þótt ýmis dæmi séu um það frá fyrri tíð að fleiri en einn hafi verið taldir hæfastir þegar skipað var í eitt dómaraembætti.“ Hvað dóm Hæstaréttar varðar segir Birgir hann auðvitað vera þýðingarmikinn.

„Þeir sem hafa haft uppi mikil gífuryrði á opinberum vettvangi um réttaróvissu, ólöglega dómara, ónýtan dómstól og svo framvegis verða að bíta í það súra epli, að Hæstiréttur tekur ekki undir með þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert