Í framboði í Reykjavík búsett í Garðabæ

Frambjóðandi til borgarstjórnar er búsettur í Garðabæ. Segir deilur við …
Frambjóðandi til borgarstjórnar er búsettur í Garðabæ. Segir deilur við lánastofnun útskýra stöðu mála. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, staðfestir við mbl.is að hún hafi fært lögheimili sitt úr Garðabæ til Reykjavíkur, þrátt fyrir að halda búsetu sinni óbreyttri í Garðabæ.

Ásthildur, sem skipar 3. sæti á lista framsóknarmanna, segir „ég er að flytja til Reykjavíkur en ég er ekki flutt.“ Hún tekur fram að þessi staða hafi komið upp vegna deilna hennar og eiginmanns hennar við lánastofnun, en eiginmaður hennar er enn skráður með lögheimili í Garðabæ ásamt börnum þeirra.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, skipar 3. sæti á B-lista í Reykjavík.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, skipar 3. sæti á B-lista í Reykjavík. ljósmynd/Hagsmunasamtök heimilanna

Spurð hvers vegna lögheimili hennar sé skráð annars staðar en þar sem hún hefur búsetu svarar hún „ég geri mér grein fyrir að það eru lög sem fylgja þessu, en á sama tíma er búið að brjóta á mér öll lög sem til eru í landinu liggur við. Það er búið að brjóta á mér samningsrétt, neytendarétt, eignarréttarákvæði stjórnarskrár og ég veit ekki hvað. Ég er í þeirri stöðu sem ég er út af því. Við erum að flytja, en við erum í rosalegri varnarbaráttu við bankann akkúrat núna og það er eina ástæðan fyrir því að við erum ekki akkúrat núna flutt löglega.“

Samkvæmt Ásthildi hefur verið tímaspursmál hvenær þau verða borin út af heimili sínu. Hún segir að deilumálið við lánastofnunina sé fyrir dómstólum og að hún hafi skráð lögheimili sitt í Reykjavík og ákveðið að fara í framboð fyrir Framsóknarflokkinn í febrúar, en þá hafi litið út fyrir að þau yrðu borin út af heimili sínu í Garðabæ daginn eftir.

Ólögmætir lögheimilisflutningar víða

Nokkuð hefur borið á að lögheimilisskráningar hafi verið úrskurðaðar ólögmætar að undanförnu og hefur það náð til fleiri sveitarfélaga og framboða.

Til að mynda hefur mikill fjöldi lögheimilisflutninga í Árneshrepp á Ströndum í aðdraganda kosninga vakið athygli, en þar hefur niðurstaða fengist í 15 af 18 tilkynningum um lögheimilisflutninga til Þjóðskrár Íslands sem stofnunin hefur gert athugasemd við.

Einnig hefur lögheimilisskráning sitjandi bæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði, Einars Birkis Einarssonar, verið talin ólögmæt, en hann er sagður hafa búsetu í Kópavogi. Hann hefur hins vegar lýst því yfir við mbl.is að hann sé ósammála niðurstöðu Þjóðskrár Íslands í málinu.

mbl.is