Keyrði undir áhrifum inn á skólalóð

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður á fertugsaldri hlaut tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær fyrir umferðar- og hegningarlagabrot. Maðurinn var handtekinn 1. júlí árið 2016 eftir eftirför lögreglu, en hann hafði þá m.a. ekið bifreið sinni undir áhrifum ávana- og fíkniefna inn á skólalóð Hofsstaðaskóla. Í ákæru var maðurinn sagður hafa raskað umferðaröryggi og stofnað á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu annarra vegfarenda í augljósa hættu.

Flúði lögreglu á göngustíg

Eftirförin hófst þegar lögregla stöðvaði för mannsins í Garðabæ. Flúði hann lögreglu á göngustíg meðfram Arnarneslæk austur í átt að Fífumýri, þá Krókamýri til austurs í átt að Hofsstaðaskóla, inn á skólalóð þannig að keðja sem varnaði umferð frá Skólabraut inn á lóðina brast.

Maðurinn keyrði næst Skólabraut að Bæjarbraut og þaðan Bæjarbraut til norðurs, þá Fífuhvammsveg til austurs og þá með allt að 120 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði var 50 kílómetra hraði á klukkustund og gegn rauðu umferðarljósi.

Lögreglubifreið ekið aftan á bifreið mannsins

Aftur ók maðurinn gegn rauðu ljósi með vinstri beygju í akstursstefnu suður Reykjanesbraut, þá norður Reykjanesbraut, áleiðis afrein frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi þar sem hann ók að nýju gegn rauðu umferðarljósi.

Á þessum tímapunkti var lögreglubifreið ekið aftan á bifreið mannsins með þeim afleiðingum að hún kastaðist yfir umferðareyju og staðnæmdist á Fífuhvammsvegi á akrein til vesturs. Maðurinn flúði þá sjálfur af vettvangi. 

Auk umferðar- og hegningarlagabrots var hann dæmdur fyrir vörslu amfetamíns, marijúana og e-töflu. Þar að auki var hann sviptur ökuréttindum í sex mánuði frá 15. júlí 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert