Mikilvægt að Brexit fái farsælan endi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtehstein og Ine …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtehstein og Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs ræða við Michel Barnier, aðalsamningamann ESB. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ítrekaði mikilvægi þess að farsæl niðurstaða fáist Brexit-viðræður á fundi sínum með aðalsamningamanni Evrópusambandsins í Brussel í dag. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins, en Guðlaugur Þór stýrði fundi EES-ráðsins í Brussel fyrir hönd EFTA-ríkjanna þriggja.

Á fundinum báru tveggja stoða kerfi EES og málefni Brexit hæst að því er fram kemur í fréttinni.

Lýsti utanríkisráðherra á fundinum hve mikilvægt EES-samstarfið hefði reynst ríkjunum þremur og að brýnt væri að aðildarríki EES standi vörð um samstarfið á „þeim viðsjárverðum tímum sem nú væru uppi í fríverslun í heiminum“.

 „Upp á síðkastið hefur orðið æ erfiðara að finna lausnir sem grundvallast á tveggja stoða kerfi EES-samningsins þegar slíkar valdheimildir eru færðar í samninginn,“ er haft eftir Guðlaugi Þór. Sú þróun samræmist illa stjórnarskrám Íslands og annarra EES-EFTA ríkja. „Þróunin undanfarin misseri hefur valdið óróa og það eru áhöld um hversu langt Ísland getur gengið í að fallast á lausnir sem vega að tveggja stoða kerfinu,“ sagði Guðlaugur Þór á fundinum. 

Einnig var farið yfir stöðu ýmissa mála sem eru á borði EES-ríkjanna, m.a. málefni tengd útgöngu Breta úr ESB, framlög EES-EFTA ríkjanna til innviðauppbyggingar í nýjustu aðildarríkjum ESB sem og persónuverndarlöggjöfina sem tekur gildi á EES-svæðinu innan skamms. 

Þá var efnt til sérstakra umræðna um stöðuna í samningaviðræðum Breta og Evrópusambandsins á lokuðum fundi utanríkisráðherra EES-EFTA ríkjanna með Michel Barnier, aðalsamningamanni Evrópusambandsins. Þar lagði Guðlaugur Þór áherslu á að brýnt sé að ná fram farsælli niðurstöðu, bæði hvað varðar viðskilnaðinn og framtíðarfyrirkomulag viðskipta ESB og Bretlands eftir útgönguna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert