„Skipulögð árás á ísraelskt landsvæði“

Raphael Schutz, sendiherra Ísraels gagnvart Noregi og Íslandi.
Raphael Schutz, sendiherra Ísraels gagnvart Noregi og Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

„Umfjöllun fjölmiðla virðist einhliða," var á meðal þess sem Raphael Schutz, sendiherra Ísraels gagnvart Noregi og Íslandi, sagði á blaðamannafundi í Reykjavík í dag, en hann er í sérstakri heimsókn á Íslandi þar sem hann ræddi um nýleg átök Ísraels og Palestínu og umræður um þau hér á landi. Meðal annars um að sniðganga Eurovision í Ísrael á næsta ári.

„Nýliðnir atburðir á Gaza-svæðinu og opnun bandaríska sendiráðsins í Jerúsalem virðast ekki hafa skilað sér í fjölmiðla á nægilega óhlutdrægan hátt. Ég er hingað kominn til að reyna að útskýra hlið Ísraelsmanna,“ sagði Schutz, með þeim fyrirvara þó að verið gæti að hann hafi ekki fengið fulla yfirsýn yfir umfjöllunina hérlendis. Hann kvaðst einnig hafa orðið fyrir vonbrigðum vegna áhrifafólks sem tjái sig um málin án þess að horfa á staðreyndir eða með því að enduróma skoðanir sem séu jafnvel ekki þeirra eigin.

„Almennt séð í íslenskum fréttum, virðist sem Ísraelsmenn séu blóðþyrstir og hafi með ásetningi ráðist á saklausa og friðsama mótmælendur í átökunum á landamærum Ísraels og Gaza-svæðisins 14. maí síðastliðinn,“ sagði Schutz. „Það er fjarstæða sem á ekkert skylt við sannleikann.“

Íbúar Gaza lúta stjórn hryðjuverkasamtaka

Landamæri Gaza-svæðisins og Ísraels séu alþjóðlega viðurkennd landamæri síðan Ísraelsher yfirgaf svæðið árið 2005. Ekki sé því um hersetu ísraelska hersins að ræða á Gaza-svæðinu. Hamas-samtökin, sem stjórna Gaza-svæðinu, séu skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Ísrael, Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og öðrum ríkjum. Almenningur á Gaza-svæðinu lúti stjórn þessara hryðjuverkasamtaka.

„Nýliðnir atburðir voru skipulagðir af Hamas-samtökunum í þeim tilgangi að ryðjast yfir landamærin og myrða ísraelska borgara, en heimili þeirra eru í 300-400 metra fjarlægð innan landamæragirðingarinnar,“ að sögn Schutz.

Nægilegar og haldbærar sannanir séu fyrir því að hin svokölluðu friðsamlegu mótmæli hafi hvorki verið sjálfsprottin né friðsamleg. Talsmaður Hamas-samtakanna hafi þegar viðurkennt opinberlega að 15 af þeim 60 sem fórust í átökunum hafi verið Hamas-liðar. „Þetta var skipulögð árás á ísraelskt landsvæði.“

Schutz sagðist vilja tala tæpitungulaust er hann sagði átökin vera tvennskonar. Annars vegar sé um að ræða vopnuð átök en hins vegar sé stríðið um almenningsálitið. „Hver einasti fallinn Palestínumaður er sigur fyrir Hamas-samtökin í stríðinu um almenningsálitið og eftir því sem talan hækkar gengur Hamas-samtökunum betur á þeim vígstöðvum. Við Ísraelsmenn viljum á hinn bóginn heldur tapa almenningsálitinu en missa einn einasta ísraelskan borgara sem hefði mátt vernda,“ segir Schutz og tók fram að átökin hafi byggst á sjálfsvörn Ísraels.

Hamas ætti frekar að hlúa að innviðum Gaza

Hann gagnrýndi einnig Hamas-samtökin, sem stjórna Gaza-svæðinu, fyrir að eyða peningum í að grafa göng yfir til Ísraels eða vopnakaup til árása í stað þess að hlúa að innviðum landsins. Erfitt sé að veita Gaza-svæðinu fjárhagslegan stuðning, sem það hafi þó fengið gnótt af, af þessum sökum. Landið hafi fengið tækifæri til uppbyggingar eftir að hersetu Ísraelsmanna lauk, en Hamas-samtökin hafi heldur kosið niðurrif og átök.

Daginn eftir, 15. maí sl. var sendiráð Bandaríkjanna opnað í Jerúsalem. Schutz lýsti yfir ánægju Ísraelsmanna með það. Eðlilegt sé að gera ráð fyrir sendiráðum í höfuðborgum, þar sem þingið og önnur stjórnsýsla hefur aðsetur, þegar embættismenn og áhrifafólk kemur í heimsókn. Hann segist ekki sammála gagnrýninni um áhrif þess á friðarumleitanir, nú þegar hafi það ferli tekið aldarfjórðung. Palestínumenn hafi ákveðið, í stað þess að eiga í beinum viðræðum við Ísrael, að taka sín sjónarmið út á alþjóðavettvang til að reyna að beita þrýstingi úr ýmsum áttum.

Að lokum virtist Schutz sem sigur Ísraels í Eurovision hafa valdið einhverjum titringi í umræðunni hérlendis. „Keppnin að ári verður haldin í Jerúsalem eða einhverri annarri borg í Ísrael. Ég sé ekki hversvegna hún skyldi ekki haldin í Jerúsalem, hún hefur verið haldin þar tvisvar áður. Seinast árið 1999 þegar Ísland varð í 2. sæti með Selmu. Við vonumst auðvitað til að Ísland komi og taki þátt á næsta ári og bæti sig um eitt sæti frá því síðast.“

mbl.is