Stuðningur við stjórnarflokkana minnkar

Stuðningur við ríkisstjórnarflokkana dregst saman í nýrri könnun MMR.
Stuðningur við ríkisstjórnarflokkana dregst saman í nýrri könnun MMR. mbl.is/​Hari

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 49,8% samanborið við 52,8% fyrir um hálfum mánuði. Stuðningur við alla stjórnarflokkana dregst saman, en stuðningur við Samfylkinguna stendur í stað og stuðningur við Pírata eykst nokkuð. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem birt er í dag.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 23,7% og hefur lækkað um tæpt eitt prósentustig frá síðustu könnun og úr 25,2% í kosningum á síðasta ári. Samfylkingin mælist með 14,6%, sem er sama fylgi og í síðustu könnun, en flokkurinn var með 12,1% í kosningum. Píratar mælast með 14,1% og bæta við sig rúmlega heilu prósentustigi frá síðustu mælingu. Píratar fengu 9,1% í kosningum.

Vinstri græn mælast með 12% fylgi núna og lækka úr 13,7% í síðustu könnun. Var flokkurinn með 16,6% í kosningum. Framsókn mælist með 10,1% og hækkar úr 8,2% í síðustu könnun, en var með 10,7% í kosningum. Miðflokkurinn er með 9,8% í könnun MMR núna og lækkar úr 10,3% síðan síðast. Miðflokkurinn var með 10,9% í kosningum.

Fylgi Viðreisnar mældist nú 7,1% og mældist 7,6% í síðustu könnun. Fylgi Flokks fólksins mældist nú 5,6% og mældist 5,8% í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist 3,0% samanlagt.

Úrtakið voru einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR og var svarfjöldi 929. Fór könnunin fram dagana 16. til 22. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert