Veittu enga lögfræðiráðgjöf

Til stendur að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum.
Til stendur að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

HS orka veitti enga lögfræðiráðgjöf við oddvita og hreppsnefnd Árneshrepps um málefni  Hvalárvirkjunar. Að mati fyrirtækisins hefur hið andstæða komið fram í fréttum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu, en tölvupóstar sem staðfesta þetta að mati fyrirtækisins voru sendir mbl.is samhliða tilkynningunni og má í heild sinni finna í viðhengi neðst í fréttinni. 

Tölvupóstarnir eru frá lögfræðingi og forstjóra HS Orku og er móttakandi þeirra beggja Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps. 

Í fjölmiðlum hafði áður verið fjallað um afrit af tölvupóstsamskiptum oddvitans, HS Orku og Vesturverks sem fjölmiðlum bárust frá stjórnarmanni í Rjúkanda, samtökum um verndun umhverfis, náttúru og menningarminja í Árneshreppi. 

Tölvupóstar forstjóra og lögfræðings HS Orku eru sendir 26. júní 2017 og fyrrnefnd tölvupóstsamskipti fóru fram á tímabilinu 16. júlí 2015 til 16. ágúst 2017.

Að því er fram kemur í tilkynningunni HS Orku segir að einhverra hluta vegna hafi hvorki svar lögfræðingsins né forstjórans ratað í fréttir fjölmiðla. Rangt sé að fyrirtækið hafi veitt lögfræðiráðgjöf.

„HS Orka telur það miður og frábiður sér órökstuddar ályktanir sem ekki eiga sér stoð í gögnum og liggja þó fyrir,“ segir í tilkynningunni.

„Ég get lítið lagt til málanna“

Í tölvupósti Finns Beck, lögfræðings HS Orku, til oddvita Árneshrepps, Evu Sigurbjörnsdóttur, vísar hann í siðareglur lögmanna og lög um lögmenn og segir sér óheimilt að veita sveitarfélaginu ráðgjöf.

„Ég get því lítið lagt til málanna. Ég bendi t.d. á lögfræðinga Sambands íslenskra sveitarfélaga sem ég hygg að þekki þetta vel og enn fremur er ekkert mál að benda sveitarfélaginu á lögmenn sem sinna svona málum,“ segir í tölvupósti hans.

Finnur vísar þó á þau ákvæði upplýsingalaga og laga um upplýsingarétt um umhverfismál sem beiðni um upplýsingar frá Árneshreppi var byggð á.

„Án þess að í því felist sérstök ráðgjöf til sveitarfélagsins þá get ég vísað ykkur á þau lög sem vísað er til,“ segir í tölvupósti hans.

„Ekkert að fela“

Í kjölfarið greindi Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, frá þeirri afstöðu fyrirtækisins í tölvupósti til oddvita Árneshrepps, að HS Orka hefði ekkert á móti því að gögn yrðu birt á grundvelli beiðninnar, framkvæmdaaðilinn hefði ekkert að fela og það væri til þess fallið að skapa tortryggni að afhenda gögnin ekki.

„Ég tel að gott sé að láta koma fram að þau verkefni sem talin eru upp í bréfi Vestur Verks eru að frumkvæði heimamanna, þ.e. áherslan kemur þaðan um hvaða verkefni komi helst til greina. Enda ræddum við það nákvæmlega þannig,“ segir í tölvupósti forstjórans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert