Æskulýðsleiðtoginn sr. Friðrik heiðraður

Blómsveigur var lagður við styttuna af sr. Friðriki Friðrikssyni við …
Blómsveigur var lagður við styttuna af sr. Friðriki Friðrikssyni við Lækjargötu í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Sr. Friðrik er einn mikilvægasti maður 20. aldarinnar á Íslandi,“ segir sr. Guðni Már Harðarson, formaður afmælisnefndar sr. Fiðriks Friðrikssonar, í samtali við mbl.is. Haldið er upp á 150 ára afmæli sr. Friðriks í dag og standa hátíðarhöld fram á sunnudag, en þau eru af ýmsum toga.

Sr. Friðrik Friðriksson, æskulýðsleiðtogi og brautryðjandi í starfi með ungmennum, fæddist á Hálsi í Svarfaðardal fyrir 150 árum. Hann stofnaði meðal annars félögin KFUM, KFUK, Val, Hauka og stóð að stofnun fleiri sumarbúða.

Samkvæmt sr. Guðna má segja sr. Friðrik hafa verið frumkvöðul á sviði æskulýðsstarfs, enda hafi „í raun ekkert verið til áður en hann fer að leita leiða til þess að gera meira og hugsa betur um æsku landsins“.

Sr. Guðni segir hátíðarhöldin meðal annars miða að því að veita því athygli að sr. Friðrik hafi lagt grunninn að mörgu því sem okkur þykir sjálfsagt í dag eins og að „sjá hæfileikana sem búa í æsku landsins og að reyna að virkja áhugann. Hann var brautryðjandi á þessu sviði.“

Dagskrá afmælisins, sem nær fram á sunnudag, hófst í gærkvöldi með 25 ára vígsluafmæli Friðrikskapellu og klukkan hálfeitt í dag var lagður blómsveigur við styttuna af sr. Friðriki við Lækjargötu í Reykjavík.

Dagskrá afmælishaldsins má finna í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert