Allt gert til að börnin tjái sig ekki

Ráðstefnan var send út í beinni frá Háskólanum í Reykjavík.
Ráðstefnan var send út í beinni frá Háskólanum í Reykjavík. Ljósmynd/Skjáskot

„Við þurfum að ræða hvort sakamálalögin verndi brotaþola nægilega mikið og tryggi réttindi þeirra,“ sagði Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, í erindi sínu „Skýrslutaka af barni á rannsóknarstigi“ á ráðstefnu um kynferðisbrot sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík í dag.

Þar fjallaði Hulda um skýrslutökur barna og hafði það til umræðu hvort rétt væri að hún færi fram undir stjórn dómara en ekki lögreglu eða ákæruvalds.

Hulda sagði fyrirkomulagið ekki nægilega gott og máli sínu til stuðnings bar hún saman málferli í kynferðisbrotamálum barna og fullorðinna. Þegar lögregla rannsakar nauðgunarbrot hjá fullorðnum hefst rannsóknin á neyðarmóttöku með skýrslutöku sem tekin er upp á hljóði og mynd, yfirleitt stuttu eftir að brot á sér stað. Við skýrslutöku eru viðstödd lögregla, réttargæslumaður brotaþola og brotaþoli og sakborningur veit ekki af málinu á þessu stigi.

Sakborningur á rétt á að vera viðstaddur skýrslutöku

Þegar börn eru hins vegar þá berst tilkynning til barnaverndar um málið og beiðni um skýrslutöku er send til héraðsdóms. Dómari er þá boðaður til skýrslutöku sem tekin er upp á hljóði og mynd. Við skýrslutökuna er fjöldi fólks viðstaddur, auk þess sem sakborningur á rétt á því að vera viðstaddur skýrslutöku nema dómari úrskurði um annað. Þá geta liðið allt að tvær vikur frá tilkynningu og þar til skýrslutaka fer fram. „Einn dagur í rannsókn sakamáls getur skipt sköpum,“ sagði Hulda.

Hún sagði gott og blessað markmið að börnin þyrftu aðeins að tala um atvikið einu sinni, en það væri þó staðreynd og að stundum væri nauðsynlegt að talað væri oftar við börnin og tók dæmi um brot þar sem karlmaður veittist að tíu ára gamalli stúlku og ók með hana á afvikinn stað og braut á henni kynferðislega.

Sakfelldur og dæmdur í 10 ára fangelsi

Lögregla var strax kölluð eftir að stúlkan hafði greint foreldrum sínum frá. Stúlkan greindi tveimur einkennisklæddum lögreglumönnum frá því sem gerst hafði og gátu þeir tryggt rannsóknarhagsmuni málsins. Neyðarmóttakan gerði undanþágu til þess að skoða stúlkuna þrátt fyrir ungan aldur og stúlkan sagði lækninum frá því sem hafði gerst svo hann gæti tekið viðeigandi sýni. Rannsóknarlögreglumaður fór svo með stúlkuna í bíltúr þar sem hún gat veitt leiðsögn og sönnunargögn fundust. Stúlkan þurfti því alls að greina fjórum sinnum frá atvikinu áður en skýrsla var tekin af henni í Barnahúsi. „Þetta þurfti til þess að maðurinn var sakfelldur og dæmdur í tíu ára fangelsi,“ sagði Hulda.

Mæður banna börnum að segja frá á leið í skýrslutöku

Þá tók Hulda dæmi þess efnis að mæður, sem grunaðar  væru um ofbeldi gegn börnum sínum, mættu með barninu í skýrslutöku í Barnahúsi. Nærveru sakbornings sagði hún oft íþyngjandi fyrir brotaþola, og í einu máli hefði móðirin jafnvel bannað barninu að segja frá á leiðinni í skýrslutöku. Sést hefði á barninu hve illa því leið meðan á skýrslutöku stóð.

„Réttindi brotaþola eiga að vera tryggð burtséð frá því hvort um börn er að ræða eða fullorðna,“ sagði Hulda.

Hún sagði Ísland eyland í þessum málefnum, enda færi skýrslutaka fram undir stjórn lögreglu og ákæruvalds í hinum Norðurlöndunum. Þar fær sakborningur ekki að vera viðstaddur. Börnin þurfi samt sem áður ekki að fara fyrir dóm, heldur er skýrslan látin duga. Reglum þessum var breytt í Noregi árið 2015 og sagði Hulda tímabært fyrir Íslendinga að líta til nágrannaþjóðar sinnar í þessu.

„Dómarar hafa jafnvel tekið upp á því að kynna börnum yngri en 15 ára að þau eigi rétt á skorast undan því að gefa skýrslu vegna tengsla við sakborning. Mér finnst allt gert til þess að koma í veg fyrir að börnin tjái sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert