Börn og ungmenni eiga að fá að tjá sig

Umboðsmaður Alþingis segir afgreiðslu Persónuverndar á kvörtun ekki í samræmi …
Umboðsmaður Alþingis segir afgreiðslu Persónuverndar á kvörtun ekki í samræmi við lög, þar sem ungmenni hafi ekki fengið að tjá sig. mbl.is/Eggert

Afgreiðsla Persónuverndar á kvörtun móður vegna myndbirtinga barnsföður hennar af fjórtán ára dóttur þeirra á Facebook var ekki í samræmi við lög, að mati umboðsmanns Alþingis. Persónuvernd vísaði kvörtuninni frá á þeirri forsendu að nauðsynlegt væri að kvörtun vegna myndbirtinganna kæmi frá dótturinni sjálfri, en dóttirin var mótfallin myndbirtingum föður síns á Facebook.

Umboðsmaður telur að það það sé í andstöðu við ákvæði barnalaga og samnings Sameinuðu þjóðanna, sem fjalla um rétt barns til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif, auk þess sem það að vísa málinu frá án þess að afla afstöðu dótturinnar sjálfrar til málsins hafi verið í andstöðu við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Með öðrum orðum, dóttirin hefði átt að fá að tjá sig, þrátt fyrir að kvörtunin kæmi frá móðurinni. Persónuvernd tók málið ekki til efnislegrar meðferðar fyrr en kvörtun barst frá dótturinni.

Fjallað er um rétt barna og ungmenna til að tjá sig um stjórnsýslumál sem þau snerta á vef umboðsmanns Alþingis í dag. Þar segir m.a. að þrátt fyrir að forsjáraðila sé falið að að vera í ákveðnu forsvari fyrir barn eða ungmenni, breyti það því ekki að viðfangsefni mála sem stjórnsýslan fjallar um og varða hagsmuni barna eða ungmenna geti verið þess eðlis að miðað við aldur og þroska viðkomandi barns eða ungmennis  „sé rétt og eðlilegt að það eigi sjálft kost á því og geti haft aðkomu að ákvörðunum í slíkum málum.“

Barn skuli eiga rétt til að láta skoðanir sínar í ljós

Umboðsmaður segir að meginreglan sé sú að það sem barni sé fyrir bestu skuli alltaf hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess og að barn skuli eiga rétt til að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varðar, að teknu réttmætu tilliti til skoðana þess í samræmi við  aldur og þroska.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögfestur hér á landi árið 2013 og barnalögum breytt til samræmis við samninginn árið 2012. Auk þess hafa sjónarmið um það sem nefnt er „barnvænleg réttarvarsla“ fengið aukið vægi.  Umboðsmaður segir að tryggja þurfi að málsmeðferð í stjórnsýslu taki mikið af þessum breyttu lagareglum og viðhorfum.

„Þegar börn eru aðilar stjórnsýslumáls eða málið varðar hagsmuni þeirra að öðru leyti þarf að gæta þess að stjórnsýslan sé þeim aðgengileg, að málsmeðferð sé hagað þannig að hæfi aldri þeirra og þroska, að málshraði sé viðhlítandi, réttur þeirra til að taka þátt í og skilja málið sé virtur og að réttmætt tillit sé tekið til skoðana þeirra. Þetta á við þrátt fyrir að foreldri eða annar forsjáraðili fari með fyrirsvar fyrir þau,“ segir í umfjöllun umboðsmanns Alþingis.

Umfjöllun á vef UA: Börn og ungmenni fái að tjá sig

Álit umboðsmanns Alþingis sem vísað er til

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert