Fékk ekki póstana sem HS Orka sendi

Árneshreppur á ströndum. Harðar deilur hafa verið í hreppnum um …
Árneshreppur á ströndum. Harðar deilur hafa verið í hreppnum um Hvalárvirkjun. mbl.is/Golli

Tölvupóstar, þar sem aðallögmaður HS Orku segir oddvita Árneshrepps að lögum samkvæmt sé sér ekki heimilt að veita sveitarfélaginu ráðgjöf, eru ekki meðal þeirra gagna sem oddviti Árneshrepps hefur afhent Pétri Húna Björnssyni, stjórnarmanni í Rjúkanda.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Rjúkanda og staðfestir Pétur þetta í samtali við mbl.is. Kveðst hann hafa séð strax og yfirlýsing HS Orku birtist í fjölmiðlum í gær að þessa pósta vanti í þau gögn sem Árneshreppur hefur afhent honum á grundvelli upplýsingalaga.  

„Ég sá strax að þessa pósta vantar í það sem ég hef fengið og þá er alveg ljóst að það eru  meiri samskipti þarna á milli heldur en ég vissi og hef fengið að vita,“ segir Pétur.

Mbl.is leitaði í gær viðbragða Evu Sigurbjörnsdóttur, oddvita Árneshrepps, en hún kvaðst ekki tjá sig frekar.

Í yfirlýsingu HS Orku segir að fyrirtækið hafi ekki veitt oddvita og hreppsnefnd Árneshrepps neina lögfræðiráðgjöf um málefni Hvalárvirkjunar og eru birtir tveir tölvupóstar sem sagðir eru sanna þetta.

Fannst oft eins og vantaði samhengi

Pétur segir tölvupóstana tvo sýna að hann hafi ekki fengið öll gögn afhent líkt og Árneshreppur hafi haldið fram, en langan tíma tók að fá gögnin afhent. Mun lengur en þá sjö daga sem lögin kveða á um. „Það var alls konar fyrirsláttur og ástæður fyrir að það tafðist. Það átti að vera ófært og annað slíkt,“ segir Pétur.

Þegar gögnin hafi hins vegar borist og hann fór að lesa í gegnum þau hafi sér oft fundist eins og það vantaði frekara samhengi. Gögnin hefur hann gerð aðgengileg á netinu.  „Það var oft eins og ég væri staddur í miðjum samræðum,“ segir hann. „Auðvitað getur sumt verið af því að hinn hluti samræðnanna hafi farið fram í gegnum síma eða maður á mann,“ bætir hann við. Í öðrum tilfellum hafi hins vegar verið augljóst að rituð gögn vantaði. Orðalag í póstum Vesturverks á borð við „það sem ég sendi síðast“ og „í framhald af síðasta pósti“ gefi slíkt til kynna. „En svo finnur maður aldrei í framhaldi af hverju það er,“ útskýrir Pétur.

„Síðan er líka fjöldi gagna sem að ég veit að eiga að vera þarna. Gögn sem koma fram í bókunum hreppsnefndar um að Vesturverk hafi sent hitt og þetta, en ég fæ þetta aldrei sent. Þarna vantar því gögn sem augljóslega hafa verið send,“ segir Pétur.

Hann hefur útbúið lista yfir þau gögn sem augljóslega vantar og þá hluti sem að sér sýnist að vanti, þó að Árneshreppur hafi svarað Úrskurðarnefnd upplýsingamála því til að öll gögn hafi verið afhent. Málið sé nú í ferli hjá lögmanni sínum gagnvart úrskurðarnefndinni og hann viti ekki til þess að því hafi verið sinnt.

Leitaði oftar til framkvæmdaaðila en hreppsnefndar

Pétur kveðst ekki vera að halda því fram að gögnin sem hann hafi fengið send hafi endilega verið handvalin í sig. „En aftur á móti er ljóst þegar þessir póstar koma frá HS Orku og ég sé strax að þessa pósta vantar í það sem að ég hef fengið, þá er líka alveg ljóst að það eru meiri samskipti þarna á milli heldur en ég vissi og hef fengið að vita. Það er því dálítið einkennilegt að þeir skuli segja að samskiptin hafi ekki verið jafnmikil og ég vilji vera láta, en birta síðan því til sönnunar meiri samskipti sem ég var ekki búinn að sjá. Þetta passar ekki alveg saman.“

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, hafi því að hans mati leitað oftar beint til framkvæmdaaðilans um ráðgjöf og stuðning „heldur en hún leitaði kannski til hreppsnefndarinnar eða til annarra sem voru óháðir eða hefðu getað veitt henni einhvern stuðning á eðlilegum forsendum,“ segir Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert