Fimmtán skráningar felldar niður

Frá Árneshreppi.
Frá Árneshreppi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þjóðskrá Íslands hefur fellt niður lögheimilisskráningar 15 af þeim 18 einstaklingum sem skráðu lögheimili sitt í Árneshreppi á stuttu tímabili í vor. Tvær skráningar voru samþykktar, þar af annað málið á grundvelli endurupptökuheimildar, og í einu máli sendi einstaklingur beiðni um leiðréttingu og var skráning hans leiðrétt á þeim grunni.

Þetta kemur fram í svari frá Ástríði Jóhannesdóttur, sviðsstjóra stjórnsýslusviðs Þjóðskrár Íslands, við fyrirspurn frá mbl.is.

Stofnunin tók í dag fyrir endurupptökubeiðnir fimm einstaklinga vegna fyrri ákvarðana hennar um niðurfellingu lögheimilis. Niðurstaða Þjóðskrár Íslands var að synja um endurupptöku þar sem ekki voru lögð fram gögn sem bentu til þess að fyrri ákvarðanir stofnunarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik sem er skilyrði fyrir endurupptöku mála samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Enn fremur barst Þjóðskrá Íslands beiðni í dag um leiðréttingu lögheimilis í einu tilfelli til viðbótar, en þar var um að ræða tvo einstaklinga. Fallist var á beiðnir þeirra. Í allt hafi stofnunin því tekið afstöðu til og lokið málum vegna lögheimilisskráningar 20 einstaklinga í Árneshreppi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert