Heldur einn í ævintýraför

Kristófer ásamt stuðningsmanni Portúgals fyrir leik þjóðanna á Evrópumótinu í …
Kristófer ásamt stuðningsmanni Portúgals fyrir leik þjóðanna á Evrópumótinu í knattspyrnu. mbl.is/Skapti

„Ert þú ekki að fara?“ var það fyrsta sem Kristófer Arnar Einarsson, stuðningsmaður Liverpool, sagði þegar blaðamaður ræddi við hann. Kristófer er „að sjálfsögðu“ á leið til Kiev þar sem Liverpool mætir Real Madríd í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu annað kvöld.

„Þú þarft ekkert að vera Poolari til að njóta alvörufótboltaleiks,“ segir Kristófer og hlær þegar hann kemst að því að blaðamaður er ekki stuðningsmaður Liverpool.

Kristófer fer einn á leikinn en hann er í stuðningsmannaklúbbi Liverpool á Englandi. Liverpool var úthlutað rúmlega 16 þúsund miðum en fólk í klúbbnum gat sótt um miða og Kristófer var einn þeirra heppnu sem dreginn var úr miðahappdrætti.

Fáir miðar fyrir stuðningsmenn

Kristófer tók þátt í svipuðu miðahappdrætti þegar Liverpool mætti Sevilla í úrslitum Evrópudeildarinnar fyrir tveimur árum. Sá leikur fór fram í Basel í Sviss á St. Jakobs-leikvanginum en hann rúmar ekki nema 35 þúsund manns.

Livepool tapaði fyrir Sevilla í úrslitum Evrópudeildarinnar fyrir tveimur árum.
Livepool tapaði fyrir Sevilla í úrslitum Evrópudeildarinnar fyrir tveimur árum. AFP

„Þá fékk ég ekki miða. Mig minnir að klúbburinn hafi ekki fengið nema sex þúsund miða.“

Leikurinn á morgun fer fram á ólymp­íu­leik­vang­in­um í Kiev í Úkraínu. Leik­vang­ur­inn tek­ur 70.050 áhorf­end­ur en aðeins verður leyfi­legt að hleypa 63 þúsund áhorf­end­um á leik­inn. 

Liðin fá sam­tals 33.252 miða á leik­inn, 6.700 miðar eru til sölu fyr­ir stuðnings­menn fé­lag­anna á heimsvísu og af­gang­ur­inn af miðunum fer til sér­stakra gesta, rétt­hafa, styrkt­araðila, emb­ætt­is­manna, nú­ver­andi og fyrr­ver­andi leik­manna og fjöl­miðla.

Ísland gerði 1:1-jafntefli við Úkraínu á ólympíuleikvanginum í Kiev 5. …
Ísland gerði 1:1-jafntefli við Úkraínu á ólympíuleikvanginum í Kiev 5. september 2016. Þá var leikið fyrir luktum dyrum en áhorfendur verða örlítið fleiri á úrslitaleiknum annað kvöld. AFP

Enginn nógu vitlaus til að fara með

„Fólk hefði getað reddað sér miðum en ég fann engan nógu vitlausan sem vildi fara með mér,“ segir Kristófer. Miðar á leikinn ganga kaupum og sölum á vefnum og er til að mynda hægt að verða sér úti um miða á miðasölusíðunni Viagogo. Ódýrasti miðinn þar kostar 515 bandaríkjadali, eða 54.600 íslenskar krónur.

Enskir fjölmiðlar hafa töluvert rætt og ritað um hversu dýrt ferðalagið til Úkraínu er fyrir stuðningsmenn Liverpool. Miðarnir á leikinn eru frekar dýrir og þá hefur verð á gistingu rokið upp úr öllu valdi. Kristófer telur að dýr gistingin sé bæði vegna þess að allt sé einfaldlega fullt í borginni og einnig vegna þess að fólk hugsi sér gott til glóðarinnar og hækki verðið.

Einhverjir stuðningsmenn Liverpool eru komnir til Kiev.
Einhverjir stuðningsmenn Liverpool eru komnir til Kiev. AFP

Hótel í Liverpool-borg eru líka mjög dýr um helgina en það er allt uppbókað þar ef fólk hugsar sér að fagna þar. Auðvitað hafa einhverjir hækkað verðið.“

Bauðst gisting í heimahúsi

Kristófer þarf þó ekki að hafa áhyggjur af svimandi háum hótelreikningi. Hann fann hóp á Facebook þar sem heimafólk býður fólki að gista hjá sér, endurgjaldslaust. Má segja að það sé leið íbúanna til að bregðast við og bjóða stuðningsmenn Liverpool og Real Madríd velkomna.

„Fólk var að bjóðast til að sækja mig, gefa mér að borða og gista hjá sér. Ég þarf reyndar sennilega ekki að gista þótt ég sé kominn með næturstað hjá prófessor í háskóla í Kiev. Hann sækir mig á flugvöllinn og ég gef honum íslensku landsliðstreyjuna í staðinn,“ segir Kristófer og útskýrir af hverju hann muni líklega ekki nýta sér gistiplássið:

„Ég lendi á hádegi á morgun í Kiev og svo tek ég rútu aftur þaðan klukkan sjö á sunnudagsmorgun. Ég verð líklega ekki kominn af leiknum fyrr en klukkan eitt eftir miðnætti í fyrsta lagi þannig að það er ekki víst að það taki því að leggja sig. Það verður örugglega nóg um að vera í borginni. Skemmtistaðir og veitingastaðir verða opnir alla nóttina,“ segir Kristófer en leikurinn á morgun hefst klukkan 21.45 að staðartíma, 18.45 að íslenskum.

Stærstu stjörnur liðanna: Mo Salah hjá Liverpool og Cristiano Ronaldo …
Stærstu stjörnur liðanna: Mo Salah hjá Liverpool og Cristiano Ronaldo hjá Real Madríd. AFP

Honum þykir framtak íbúa í Kiev sem bjóða upp á fría gistingu alveg frábært og telur það í raun og veru nauðsynlegt. „Ég fór til Dortmund árið 2001 þegar Liverpool keppti í úrslitum Evrópudeildarinnar. Þá gistum við á tjaldsvæði því það var ekki hægt að fá neitt annað á eðlilegu verði.“

„Þetta verður ævintýri“

Eins og oft vill verða um stuðningsmenn Liverpool er Kristófer bjartsýnn og hefur góða tilfinningu fyrir leiknum annað kvöld gegn ríkjandi Evrópumeisturum. „Ég held að leikurinn fari 5:3 en veit ekki hvort það verður eftir vítaspyrnukeppni eða venjulegan leiktíma. Varaplanið er að þetta fari 5:3 eftir vítaspyrnukeppni, eftir þetta verður týpískur úrslitaleikur,“ segir Kristófer.

Ég spái því að Livepool komist í 5:0 en Real nái að setja þrjú á síðustu tíu mínútunum af því að Liverpool spilar yfirleitt bara í 80 mínútur,“ segir hann og skellir upp úr.

„Þetta verður ævintýri sama hvernig fer.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert