Ísland í 3. sæti hjá Bandaríkjamönnum

Ferðamenn í miðborg Reykjavíkur. Borgin er nú í 3. sætinu …
Ferðamenn í miðborg Reykjavíkur. Borgin er nú í 3. sætinu yfir vinsælustu viðkomustaði bandarískra ferðamanna. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Þó að London og París séu enn vinsælustu viðkomustaðir bandarískra ferðamanna þetta sumarið, hefur Reykjavík tekið stórt stökk upp á við. Borgin er nú í þriðja sæti yfir vinsælustu viðkomustaðina en var í því 17. áður. Þetta eru niðurstöður könnunar Allianz Global Assistance sem greint er frá í ferðavefnum Travel Weekly.

Allianz skoðaði allar ferðir sem sem fóru í gegnum bókunarvefi systurfyrirtækja sinna og sem hófust á bandarískum flugvöllum á tímabilinu frá 28. maí til 3. september.

Frá árinu 2015 hefur London verið í efsta sæti könnunarinnar og París í öðru sæti. Reykjavík var hins vegar í 28. sæti 2015, í því 16. árið eftir, 17. sætinu 2017 og svo í þriðja sætinu í ár.

„Þökk sé að hluta til fjölgun flugferða milli Bandaríkjanna hefur Ísland, með sitt framandlega landslag og litrík borgarhús, verið í tísku á samfélagsmiðlum undanfarin ár,“ segir í yfirlýsingu Allianz. „Þrátt fyrir umræður um offjölgun ferðamanna og þörf á að takmarka árlegan fjölda ferðamanna til landsins halda vinsældir Reykjavíkur áfram að aukast þetta sumarið.“

Róm sem státaði af þriðja sætinu í fyrra er nú dottin niður í 4. sætið og Amsterdam sem var í sjöunda sæti í fyrra er nú í 5. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert