Kærir Isavia til úrskurðarnefndar

Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson

Vefmiðillinn Túristi.is hefur kært Isavia ohf. til úrskurðarnefndar upplýsingamála vegna ítrekaðra synjana fyrirtækisins um að svara fyrirspurnum varðandi flugferðir til og frá Keflavíkurflugvelli. Bandaríkin og önnur Evrópulönd birta sams konar upplýsingar.

„Ég hef ítrekað óskað eftir því [við] Isavia ohf. að aðgangur verði veittur að sambærilegum upplýsingum um flugumferð um Keflavíkurflugvöll, en þeirri beiðni hefur endurtekið verið synjað. Er mér því nauðugur sá kostur að skjóta afstöðu Isavia ohf. til úrskurðarnefndar um upplýsingamál,“ segir í kærunni.

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is, segir í samtali við mbl.is, að fyrirspurnirnar séu ekki einungis til þess að svala hans eigin forvitni heldur telur hann að upplýsingarnar myndu gagnast til að rannsaka og skoða stöðu ferðaþjónustunnar sem sé ein meginstoð íslensks atvinnulífs.

Túristi.is hefur frá árinu 2011 gert daglegar talningar á flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli og birtir fréttir byggðar á upplýsingunum um hver mánaðamót þar sem koma fram upplýsingar um vægi hvers flugfélags talið í brottförum.

Fordæmi frá öðrum löndum

Í kærunni kemur fram að samantektir Túrista séu líklega einu opinberu gögnin sem til eru um flugumferð til og frá landinu þar sem hvorki Isavia né Samgöngustofa birti sambærilegar upplýsingar.

Þar kemur einnig fram að víða um heim veiti flugmálayfirvöld greinargóðar upplýsingar um flugumferð í sínum löndum og að bandarísk flugmálayfirvöld veiti til dæmis upplýsingar um fjölda sæta og farþega í hverri einustu flugferð, brotið niður í tímabil og flugfélög sem fljúga til og frá viðkomandi áfangastað.

Enn fremur kemur þar fram að bresk og dönsk flugmálayfirvöld veiti sambærilegar upplýsingar og að slíkar upplýsingar varði almenning enda flugumferð og ferðaþjónusta lykilatvinnugreinar í landinu.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia ohf., vildi ekki tjá sig um málið í bili.

Samkvæmt upplýsingum frá úrskurðarnefnd upplýsingamála tekur að meðaltali um 30 vikur að úrskurða í máli frá því að kæra er lögð fram.

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is.
Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert