Máttu ekki skrá upplýsingar um barn í Mentor

Drengurinn glímdi við veikindi og missti 30 daga úr skóla …
Drengurinn glímdi við veikindi og missti 30 daga úr skóla haustið 2014. mbl.is/Hari

Persónuvernd hefur úrskurðað að skráning grunnskóla á ákveðnum upplýsingum um barn í Mentor hafi ekki samrýmst lögum. Um er að ræða upplýsingar um heilsuhagi barns og upplýsingar um aðstæður á heimili sem kunna að kalla á afskipti barnaverndaryfirvalda. 

Hefur verið lagt fyrir skólann að senda Persónuvernd staðfestingu á því að upplýsingarnar hafi verið teknar úr Mentor og færðar yfir í umhverfi þar sem öryggi er nægilega tryggt, auk lýsingar á nauðsynlegum öryggisráðstöfunum. 

Persónuvernd barst kvörtun frá móður, fyrir hönd ólögráða sonar, 18. júlí 2017 yfir skráningu upplýsinganna í Mentor-kerfi grunnskóla hans, en um er að ræða heildstætt upplýsinga- og námskerfi fyrir nemendur, foreldra og skóla. Drengurinn er fæddur árið 2001.

Spurði af hverju skólinn hefði hótað móður hans

Í kvörtuninni segir meðal annars að veikindi hafi hrjáð hann um þriggja mánaða skeið haustið 2014 og hafi hann vegna þess misst um 30 daga úr skóla þá önn. Móðirin skilaði inn læknisvottorði vegna veikindanna en skólastjóri og námsráðgjafi viðruðu engu að síður áhyggjur af ástundun hans. Móðirin ræddi þær áhyggjur við soninn og sagði að skólastjóri myndi væntanlega skrifa bréf til Barnaverndar Reykjavíkur vegna málsins.

Drengurinn ákvað í framhaldinu að ræða sjálfur við skólastjóra og námsráðgjafa, ásamt eldri bróður sínum, og spurði hvers vegna móður þeirra hefði verið hótað af skólanum. Skólastjóri ritaði dagbókarfærslu um heimsókn bræðranna inn í Mentor og sagði að þetta væri rangt. Móðurinni hefði ekki verið hótað. Vissulega hefði verið rætt við hana því skólinn hefði áhyggjur af miklum fjarvistum hans og auðvitað vonuðu allir að hann færi að hressast, en skólastjóra bæri að tilkynna þetta til barnaverndar og það yrði gert.

Námsráðgjafi ritaði einnig færslu inn í Mentor þar sem kom fram að eldri bróðirinn væri áhyggjufullur því móðir hans hefði sagt að það ætti að taka þann yngri af henni. Einnig kom fram að móðirin og yngri bróðirinn væru grátandi heima vegna þessa. Sagðist námsráðgjafi hafa sagt drengnum að þetta væri ekki rétt. Skólanum bæri skylda að tilkynna Barnavernd Reykjavíkur um slæma mætingu, en tilgangurinn væri ekki að taka drenginn af henni.

Telur að um trúnaðarbrest hafi verið að ræða

„Kvartandi kveðst hafa séð færslurnar í Mentor hjá drengjunum og rætt þær við þá, en þeim hafi brugðið við að sjá að þessar upplýsingar hefðu verið skrifaðar niður. Telur kvartandi að þarna hafi verið um að ræða trúnaðarbrest og að skólanum hafi verið óheimilt að skrá þessar upplýsingar í Mentor,“ segir í úrskurði Persónuverndar.

Efir að móðirin lagði fram kvörtun til Persónuverndar var skólanum boðið að koma á framfæri skýringum. En í svarbréfi skólans kom fram móðirin hefði áður kvartað yfir málinu við yfirstjórn skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sem ekki hafi séð ástæðu til að gera athugasemd við vinnubrögð skólans. Skólinn hefði engu við þá afgreiðslu að bæta.

Í úrskurðinum segir að Persónuvernd kunni að telja það málefnalegt og í samræmi við ákvæði laga að skrá tilteknar persónuupplýsingar um nemendur í rafrænt upplýsingakerfi á borð við Mentor. Til að mynda grunnupplýsingar um nemanda, þ.e. nafn, kennitölu, heimilisfang og tengiliðaupplýsingar um nánustu aðstandendur, einkunnir, fjarvistir, heimavinnu og almenna umfjöllun um atburði í skólanum. Einnig hefur Persónuvernd talið að það kunni að samrýmast reglugerð að skrá upplýsingar um greiningar eða heilsufarsupplýsingar nemenda og aðstandenda þeirra. Það sé hins vegar háð því skilyrði að farið sé að öllum lögum varðandi öryggi. Persónuvernd telur það ekki hafa verið gert. Til að mynda hafi ekki verið útbúið sérstakt umhverfi fyrir viðkvæmar persónuupplýsingar þannig að þær nytu sérstakrar verndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert