Mokka fagnar sextíu árum

Mæðgurnar Guðný Guðjónsdóttir og Oddný Guðmundsdóttir eru þakklátar fyrir kaffihúsið. …
Mæðgurnar Guðný Guðjónsdóttir og Oddný Guðmundsdóttir eru þakklátar fyrir kaffihúsið. Vöffluuppskriftin er enn hernaðarleyndarmál. mbl.is/Árni Sæberg

Mokka-Kaffi var opnað 24. maí 1958 og átti því 60 ára afmæli í gær. Hjónin Guðný Guðjónsdóttir og Guðmundur Baldursson stofnuðu staðinn en börnin þeirra sjá að stórum hluta um hann í dag. Mokka er eitt af elstu kaffihúsum Reykjavíkur og hefur verið nánast óbreytt síðan það var opnað.

„Það voru einhver kaffihús í Reykjavík þegar við opnuðum en engin með ítalska kaffivél eins og við,“ sagði Guðný við Morgunblaðið í gær. „Þegar við opnuðum hér var Guðmundur maðurinn minn búinn að vera á Ítalíu að læra söng. Þar kynntist hann ítölsku kaffimenningunni. Hér á landi þekkti enginn espresso eða cappuccino,“ segir Guðný og bætir við að þessi nýstárlega aðferð hafi vakið mikla lukku. Kaffihúsið vakti í raun svo mikla lukku að það sem átti að vera aukastarf varð að aðalstarfi. „Þetta átti að verða að hliðarstarfi við sönginn en svo fór kaffihúsið svo vel af stað strax í byrjun að þetta varð að aðalstarfi hans og söngurinn var til hliðar.“

Kaffihús og sýningarsalur

Það er svolítið eins og að stíga aftur í tímann að koma inn á Mokka. Listin á veggjunum er í raun það eina sem breytist reglulega, en listsýningar hafa verið þar frá upphafi. Oddný, dóttir Guðnýjar og Guðmundar, segir þá hefð hafa komist á í upphafi vegna skorts á sýningarsölum. „Pabbi var úti á Ítalíu með Braga Ásgeirsyni og Erró og þegar hann kom heim vantaði sýningarsali. Pabbi fór þá að setja myndir eftir vini sína á veggina og svo vatt þetta upp á sig.“

Á fjögurra til sex vikna fresti er listaverkum skipt út, en þessa dagana stendur yfir sýning á hinum ýmsu verkum sem hafa verið sýnd á Mokka í gegnum árin.

Vöfflurnar á Mokka hafa alla tíð verið umtalaðar en þegar Guðný er spurð út í uppskriftina hristir hún höfuðið. „Hún er enn leyndarmál og við megum til með að halda henni fyrir okkur. Starfsfólkið fær ekki einu sinni að vita hvað er í deiginu.“

Mokka er sannkallað fjölskyldufyrirtæki, en börn Guðmundar og Guðnýjar sjá að mestu um staðinn og hafa barnabörn þeirra hjóna einnig mörg hver unnið á kaffihúsinu. Guðný segist hafa haft mjög gaman af því að reka kaffihúsið en að það hafi einnig verið afar krefjandi. „Mokka er litla barnið okkar sem aldrei verður stórt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert