Umræðan úr samtölum yfir á netið

AFP

Fyrir tíma samfélagsmiðla greindu brotaþolar yfirleitt einhverjum í nærumhverfinu frá ef þeir höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur þetta breyst og umræðan færst þangað inn. Þetta kom fram erindi Bryndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur dósent og Rannveigar S. Sigurvinsdóttur aðjúnkt við sálfræðisvið HR á ráðstefnunni Kynferðisbrot í brennidepli í morgun.

Þær kynntu rannsókn sína sem byggir á frásögnum um það bil 400 kvenna á samfélagsmiðlum. Að þeirra sögn hafa rannsóknir sýnt að mikilvægt er fyrir þolendur að segja frá ofbeldi og frásagnir um ofbeldi og viðbrögð annarra skipta máli fyrir geðheilsu þolanda.

Ótti við að fá neikvæð viðbrögð er algengur og ef slík viðbrögð koma fram getur haft þau áhrif að þolandi dragi frásögn til baka eða hætti við að fara með málið áfram í kerfinu. 

Með tilkomu samfélagsmiðla þá hafi miklu fleiri stigið fram og sagt frá. Með slíkum frásögnum nái þolendur til stórs hóps strax og um leið er ókunnugum greint frá ofbeldinu sem viðkomandi hefur orðið fyrir.

Þær hófu rannsókn sína í júní í fyrra og tóku viðtöl við einstaklinga sem höfðu komið fram í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og þá sem höfðu tekið þátt í stjórn vefja sem slíkar frásagnir eru algengar. Eins skoðuðu þær frásagnir á Twitter og Facebook á tveggja ára tímabili. Frásögnum fjölgar mjög þegar ákveðin umræða er í gangi. Svo sem Beauty Tips, Druslugangan og mótmælin við lögreglustöðina á Hverfisgötu í nóvember 2015. Slík umræða kveiki viðbrögð og frásögnum fjölgar á netinu.

Í heild skoðuðu þær 397 frásagnir á samfélagsmiðlum þar sem þolendur segja frá eigin reynslu af kynferðisofbeldi. 95% frásagna voru frá konum og allar frá konum sem voru 18 ára eða eldri. Í flestum tilvikum greindu þær frá ofbeldi sem nokkuð var liðið frá. Sumar að stíga fram í fyrsta sinn en aðrar höfðu áður tjáð sig við einhvern nákominn. Algengast var að maki eða fyrrverandi maki hafi brotið á þeim eða einhver annar fjölskyldumeðlimur. 

Í viðtölum lýstu brotaþolar bæði jákvæðum og neikvæðum viðbrögðum. Þær hafi meðal annars fengið að heyra að kærastar nauðguðu ekki og þær sakaðar um lygar. Aðrar lýstu jákvæðum viðbrögðum, bæði í nærumhverfi og eins frá lögreglu. 

mbl.is

Viðbrögðin við slíkum frásögnum eru miklu meiri á samfélagsmiðlum heldur en í einkasamtölum en um leið yfirborðskenndari. Þær Rannveig og Bryndís segja að þær hafi ekki fundið nein sjáanleg neikvæð viðbrögð við frásögnum kvennanna en þær viti hins vegar ekki hvort einhver slík ummæli hafi verið fjarlægð eða þau send í persónulegum skilaboðum.

Þær ætla að halda áfram með rannsóknina og hafa fengið styrk til þriggja ára frá Rannís til þess. 

Sigrún Sigurðardóttir lektor og formaður Rannsóknarmiðstöðvar gegn ofbeldi við HA kynnti sínar rannsóknir af ofbeldi í garð karla og eins rannsókn Elísu Drafnar Tryggvadóttur sem er að ljúka MS í heilbrigðisvísindum frá Háskólanum á Akureyri. 

Sigrún fjallaði meðal annars um kynferðislegt ofbeldi gagnvart ungum karlmönnum og tók sem dæmi mál sem dæmt var í fyrir viku síðan. Þar var Þorsteinn Halldórsson dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir ítrekað kynferðisofbeldi gagnvart ungum pilti. Foreldrar piltsins vildi kæra Þorstein fyrir ofbeldið gagnvart barni sínu á sínum tíma en gátu það ekki þar sem kæran varð að koma frá drengnum sjálfum þar sem hann var orðinn fimmtán ára gamall. Segir Sigrún mikilvægt að þessu verði breytt og foreldrar geti kært slíkt ofbeldi gagnvart börnum þrátt fyrir að þau séu orðin fimmtán ára gömul.

Svala Ísberg Ólafsdóttir, fundarstjóri ráðstefnunnar, tók fram eftir fyrirlestur Sigrúnar að Þorsteinn sé nafngreindur í dómi héraðsdóms en dómurinn er birtur á vef héraðsdóms. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hafði fyrr á ráðstefnunni talað um umfjöllun fjölmiðla þegar gerendur eru ónafngreindir en svo er ekki í þessu tilviki.

Að sögn Sigrúnar á eftir að gera rannsóknir á kynferðisofbeldi í garð karla og hvetur hún til þess að það verði rannsakað frekar. 

Arndís Vilhjálmsdóttir kynnti einnig rannsókn sína á meðferðarúrræðum sem í boði eru fyrir kvenfanga, bæði fyrir og í afplánun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert